Stjórn hjúkrunarráðs Landspítala lýsir yfir miklum áhyggjum af uppsögnum á þriðja hundrað hjúkrunarfræðinga við spítalann. „Landspítali má ekki við að missa hjúkrunarfræðinga úr starfi. Þeir gegna mikilvægu hlutverki í þjónustu við sjúklinga og hafa lagt að baki margra ára nám og þjálfun til sérhæfðra starfa,“ segir í ályktun stjórnarinnar.
Reynslan sýnir að í kjölfar erfiðrar kjarabaráttu hætta margir hjúkrunarfræðingar störfum og nú þegar fara margir þeirra reglulega í vinnuferðir til útlanda.
„Stjórn hjúkrunarráðs beinir því til stjórnenda á Landspítala, stjórnvalda og hjúkrunarfræðinga að finna leiðir til að leysa þetta mál sem allra fyrst. Án þessara hjúkrunarfræðinga verður Landspítali að mestu óstarfhæfur,“ segir í ályktuninni.