Tíðarfar í nóvember var lengst af óhagstætt að sögn Veðurstofu Íslands. Mikill snjór var víða um landið norðanvert en snjólétt syðra. Illviðri voru með meira móti, sérstaklega framan af, og fyrstu dagana gerði óvenjuöflugt norðanillviðri með foktjóni víða um land.
Hiti var nærri meðallagi, aðeins ofan við það á Suður- og Austurlandi en lítillega undir um landið norðvestan- og norðanvert. Mánaðarmeðalhitinn í Reykjavík var 1,5 stig og er það 0,3 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990. Á Akureyri var meðalhitinn -1,0 stig og er það um 0,7 stigum undir meðallagi, að því er segir á vef Veðurstofunnar.
Meðalhiti í mánuðinum var hæstur í Surtsey, 3,7 stig, og 3,1 á Garðskagavita. Lægstur var meðalhitinn í Sandbúðum, -6,4 stig. Lægstur meðalhiti í byggð var í Möðrudal, -4,5 stig.
Hæsti hiti sem mældist í mánuðinum var 13,7 stig og mældist hann þann 5. bæði í Búðardal og á Kambanesi. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist þann 5. á Dalatanga, 11,8 stig. Lægsti hiti mánaðarins mældist við Hágöngur þann 26., -20,3 stig. Lægsti hiti í byggð mældist -19,6 stig, það var í Möðrudal þann 26. Lægsti hiti á mannaðri stöð mældist -15,6 stig á Grímsstöðum á Fjöllum þann 29.
Þá kemur fram að mjög úrkomusamt hafi verið um landið norðan- og austanvert, en tiltölulega þurrt víðast hvar á Suðurlandi, þó ekki í Reykjavík því þar mældist úrkoma 85,6 mm og er það 18 prósent umfram meðallag. Á Akureyri mældist úrkoman 127,3 mm og er það meira en tvöföld meðalúrkoma í nóvember. Jafnmikil úrkoma hefur ekki mælst á Akureyri í nóvember síðan 1991 – en þá var hún heldur meiri en nú. Úrkoman á Höfn í Hornafirði mældist 125 mm. Í Stykkishólmi var úrkoman aðeins rétt rúmur helmingur meðalúrkomu og á Stórhöfða í Vestmannaeyjum var hún um 73 prósent meðalúrkomu.
Ekki hefur mælst nærri því jafnmikil úrkoma í nóvember og nú á Grímsstöðum á Fjöllum. Þar hefur úrkoma verið mæld samfellt frá 1935. Nóvembermet var einnig slegið á Tjörn í Svarvaðardal, þar hefur verið mælt frá 1969.
Óvenju snjóþungt var um landið norðanvert. Á Akureyri var alhvítt alla daga mánaðarins og hefur það ekki gerst þar í nóvember síðan 1969. Alhvítt var 29 daga í nóvember 2010. Í Reykjavík voru 4 alhvítir dagar en þrjá þeirra var aðeins grátt í rót, meðalsnjódýpt alhvítu dagana var aðeins 1 cm. Í Reykjavík er að meðaltali alhvítt 6 daga í nóvember og meðalsnjódýpt þá 6 cm.