„Ég vil bara átta mig betur á því hver nákvæmlega staða málsins er hjá þeim,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, í samtali við mbl.is spurður um stöðuna á frumvarpi hans um breytingar á stjórn fiskveiða en það hefur enn ekki verið lagt fram á Alþingi.
Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum eru talsvert skiptar skoðanir á milli þingmanna stjórnarflokkanna, Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, um frumvarpið og bókuðu nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar þannig fyrirvara við málið þegar það var afgreitt úr þingflokki hennar í gær.
Steingrímur segir að hann þurfi aðeins að fara betur yfir málið í ljósi þeirra frétta. „Samfylkingin veit bara af því að ég þarf að fá skýrari skilaboð þaðan." Hann segir ennfremur að þetta sé ekki endilega sólarhringaspursmál fyrst að ekki tókst að leggja málið fram fyrir 1. desember.
Spurður hvenær hann geri ráð fyrir því að frumvarpið verði lagt fram segist hann ekkert vilja tjá sig um það. „Ég vil ekkert segja meira um þetta mál. Þetta er svona aðeins í biðstöðu á meðal málið skýrist.“
Spurður hvort segja megi að boltinn sé hjá Samfylkingunni játar hann því. „Já, vissulega er það það. Það er svona þessi töf sem er á afgreiðslunni hjá þeim og svona fyrirvarar og fréttir af ýmsu tagi um afstöðu manna þar sem gerðu það að verkum að ég taldi það óhjákvæmilegt. Og þeir vita það vel og skilja það alveg að við þurfum aðeins að átta okkur betur á stöðu málsins.“