Spá hryðjuverkum á næstu 5-10 árum

Jón F. Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra.
Jón F. Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

„Það eru meiri líkur en minni á því að það verði framið svona voðaverk af einhverju tagi hér á landi á næstu 5-10 árum,“ sagði Jón F. Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra, á fundi hjá Varðbergi í dag, en þar var fjallað um voðaverkin í Noregi.

Embætti ríkislögreglustjóra hefur síðustu mánuði farið yfir skýrslu sem óháð rannsóknarnefnd vann um viðbrögð norsku lögreglunnar við hryðjuverkaárásinni 22. júlí 2011 í miðborg Óslóar og í Útey.

Jón sagði að þegar lögreglan velti fyrir sér spurningum um þá ógn sem við stæðum frammi fyrir þá væri það ekki hættumat lögreglunnar eitt sem réði niðurstöðunni. Það skipti ekki síður máli hversu mikla áherslu stjórnvöld legðu á að bregðast við þessari ógn og hversu ofarlega öryggi þjóðarinnar væri á forgangslista stjórnvalda. „Mín reynsla hér innanlands er að löggæsla, almannavarnir og öryggismál eru ekki hátt skrifuð í hinni pólitísku forgangsröðun.“

Ekki nóg að marka stefnu

Jón sagði að stjórnvöld væru að vinna að margvíslegri stefnumörkun sem tengist öryggi þjóðarinnar. „Það er einfaldlega þannig að þessari stefnur hafa lítið gildi ef þeim fylgir ekki fjármagn. Þá verður þeim ekki hrundið í framkvæmd.“

Jón bendir á að þegar stjórnvöld væru að meta áhættu af atburðum eins og eldgosum, hópslysum eða hryðjuverkum væru viðbrögðin alltaf þau sömu. Það þyrfti að grípa til mótvægisaðgerða. „Okkar niðurstaða eftir þessa yfirferð er að áhættustig vegna hættu af hryðjuverkum og öðrum stórkostlegum ofbeldisverkum sé óásættanleg. Áhættustigið er of hátt og það vantar mótvægisaðgerðir, sem í raun og veru verður að grípa til strax.“

Jón sagði að lengi vel hefðu menn talið að alvarlegasta ógnunin sem menn stæðu frammi fyrir væri af völdum náttúrunnar. Þetta væri að breytast. Þegar horft væri á þann fjölda sem Breivik hefði drepið í Noregi og hversu margir færust í eldgosum þá yrðu menn að horfast í augu við að hætta á hryðjuverkum hefði verið vanmetin.

Jón sagði að hætta á umhverfisslysi væri einnig veruleg. Skipulögð glæpastarfsemi væri einnig ný ógn sem menn hefðu ekki horfst í augu við. Hann sagði að ríkislögreglustjóri hefði byrjað að vara við þessari hættu árið 1998, en fjárveiting til að sinna þessu verkefni hefði hins vegar ekki komið fyrr en 2010 og 2011.

„Það er alveg kristaltært að það geta orðið hryðjuverk á Íslandi. Greiningardeildin hefur síðustu árin einmitt varað við því að það sé aukin hætta á því að einstaklingar valdi voðaverkum á Íslandi,“ sagði Jón.

Hryðjuverkahættan er viðvarandi og hún er að aukast

Jón sagði að í huga almennings væru hryðjuverk á Íslandi fjarlægur möguleiki. Hann varaði við því að menn vanmætu hættuna eins og Norðmenn hefðu gert. Það væri líka staðreynd að þegar viðbúnaður væri aukinn í einu landi skapaðist aukin hætta í öðru landi sem ekki væri með sama viðbúnað. „Alþjóðleg hryðjuverkahætta er viðvarandi og hún er talin vera að aukast en ekki minnka. Það hefur líka sýnt sig að hryðjuverk geta gerst hvar sem er.“

Jón sagði að áður fyrr hefðu hryðjuverkamenn gjarnan notað hryðjuverk til að vekja athygli á einhverjum málstað frekar en að drepa margt fólk. Þetta hefði breyst. Nú væri markmið hryðjuverkamanna einmitt að drepa eins marga og þeir gætu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert