Vill að vopn séu í lögreglubílum

Jón F. Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra, segir að það sé tímabært að ræða þann möguleika að lögreglumenn eigi aðgang að vopnum í lögreglubílum, líkt og er í Noregi.

Þetta sagði hann á fundi Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál, í dag.

Jón sagði að viðbúnaður lögreglu vegna voðaverka hefði fram að þessu miðast við að fást við gíslatöku eða aðra slíka atburði þar sem tíminn ynni með lögreglunni. Hann sagði engan vafa leika á að menn hefðu vanmetið hættu á hryðjuverkum þar sem ódæðismaðurinn hefði það markmið að drepa fólk. Í slíkum tilvikum skipti skjót viðbrögð öllu máli.

Jón sagði að búnaður lögreglu til að fást við voðaverk væri ekki nægilegur. Búnaðurinn væri geymdur á lögreglustöðinni á Hverfisgötu, en hann sagði að menn yrðu að velta fyrir sér hvort ekki yrði að koma varnarbúnaði fyrir í lögreglubílunum til að stytta viðbragðstíma lögreglu. Jón sagði að samhliða þessu þyrfti að efla þjálfun lögreglumanna. Jón tók fram að hann væri ekki að gera tillögu um að lögreglan yrðu vopnuð við almenn skyldustörf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert