Fimm alvarleg atvik á heilbrigðisstofnunum hafa verið tilkynnt til embættis landlæknis, þar af fjögur dauðsföll, í ár. Árið 2011 voru alvarleg atvik þrjú, þar af eitt dauðsfall, og árið 2010 voru þau tíu, þar af tvö dauðsföll. Þetta kemur fram á vef embættis landlæknis.
Samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu ber að tilkynna landlækni tafarlaust um óvænt atvik sem verða í heilbrigðisþjónustu og hafa valdið eða hefðu getað valdið sjúklingi alvarlegu tjóni.
Verði óvænt dauðsfall á heilbrigðisstofnunum eða þar sem heilbrigðisþjónusta er veitt sem ætla má að rekja megi til mistaka, vanrækslu eða óhappatilviks, skal auk tilkynningar til landlæknis, tilkynna það til lögreglu.
Landlæknir skal rannsaka slík mál til að finna á þeim skýringar og tryggja eftir því sem kostur er að slík atvik eigi sér ekki aftur stað. Ákveðið verklag er fyrir hendi hjá landlækni um hvernig slík mál eru unnin,“ segir í grein sem Geir Gunnlaugsson landlæknir hefur ritað á vef embættisins.
Rannsókn á atviki fer fyrst fram á stofnuninni þar sem atvikið átti sér stað. Þegar rannsókn stofnunar er lokið aflar landlæknir allra nauðsynlegra gagna til að rannsaka málið á sjálfstæðan hátt. Rannsókn landlæknis lýkur með álitsgerð sem send er til viðkomandi stofnunar.
„Í álitsgerðinni geta komið fram tilmæli um úrbætur sem nýta má til að endurskoða verklag og verkferla, enda er tilgangur rannsóknar slíkra mála að stuðla að því með öllum tiltækum ráðum að sambærileg atvik endurtaki sig ekki. Landlæknir getur auk tilmæla áminnt viðkomandi starfsmenn eða svipt þá starfsleyfi.
Hins vegar skal bent á að rannsóknir hafa sýnt að í flestum tilvikum er umað ræða ágalla í skipulagi þjónustunnar. Lög kveða einnig á um að allir sem veita heilbrigðisþjónustu skulu halda skrá um öll óvænt atvik í þeim tilgangi að finna skýringar á þeim og leita leiða til að tryggja að þau endurtaki sig ekki,“ segir á vef landlæknis.