„Umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, hefur ákveðið að setja í gildi nýja byggingarreglugerð nú um áramótin. Það mun hafa í för með sér 10-15% hækkun á byggingarkostnaði á Íslandi“ segir Gunnar I. Birgisson, bæjarfulltrúi, í grein í Morgunblaðinu í dag. Segir hann talsverða umræðu hafa verið um þetta mál í fjölmiðlum og farið í gegnum þær breytingar sem valda kostnaðarhækkunum.
Gunnar Ingi segir m.a. í grein sinni: „Ef þessi vanhugsaða reglugerð tekur gildi mun hækkunin fara inn í byggingarvísitöluna, til hækkunar, sem gengur svo áfram inn í lánskjaravísitöluna. Þetta þýðir að húsnæðislán fjölskyldna í landinu hækka um tugi milljarða. Viljum við þetta? Nei. Hugsum nú áður en við förum í þessa breytingu og frestum gildistöku reglugerðarinnar svo að hægt verði að fara betur yfir hana og breyta því sem betur má fara. Annað er óráð.“