Krefjast skýrra svara

mbl.is/Arnaldur Halldórsson

„Við erum búin að biðja ríkisstjórnina um að gefa skýr svör: ætlið þið að klára þessa 110% leið eða skilja okkur eftir með þyngri bakpoka en aðra?“ segir Eva H. Baldursdóttir, lögfræðingur og ein forsvarsmanna Lánsveðshópsins svokallaða. Það er hópur þeirra sem fengu lánað veð í húseign annarra, t.d. foreldra, en greiðslan er á nafni og í höndum lántakenda.

Með 110% leiðinni er átt við það samkomulag sem gert var á milli stjórnvalda, lífeyrissjóða og fjármálafyrirtækja um að þeir sem skulduðu meira en 110% af verðmæti húsnæðis síns fengju mismuninn felldan niður. Þeir sem fengu lánað veð í húseign annarra áttu ekki kost á þessari leið.

4.000 heimili eru í þessum sporum

Að sögn Evu er um að ræða 4.000 heimili sem fengu lán hjá stærstu lífeyrissjóðum landsins. Hún segir að þeir sem voru að kaupa sig inn á fasteignamarkaðinn á árunum 2004-2008 hafi orðið verst úti.

„Það er klárlega verið að mismuna fólki með því að bjóða þeim, sem tóku annars konar lán en við, upp á 110% leiðina. Í febrúar var stofnaður hópur fjögurra ráðherra, svokölluð sérstök ráðherranefnd, sem átti að útfæra tillögur til að mæta þörf þessa hóps, en ekkert bólar á þeim tillögum,“ segir Eva.

„Það er ólíðandi að það sé verið að mismuna fólki eftir því hvernig það fjármagnaði húsnæðiskaup sín,“ segir Eva og segist vita til þess að fólk sem fékk lánað veð skuldi allt að 150% af andvirði húsnæðis síns. „Þessi hópur hefur orðið eftir. Við viljum njóta sama réttar og aðrir.“

Það hefur ekkert gerst

Hópurinn heldur opinn fund annað kvöld klukkan 20:00 í Odda í Háskóla Íslands. Þangað hefur forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar og lífeyrissjóðanna, auk þingmanna verið boðið og hafa nokkrir þegar tilkynnt komu sína.

„Við viljum fá skýr svör. Satt best að segja erum við orðin vonlítil um niðurstöðu, stjórnvöld sköpuðu væntingar um að það væri hægt að finna lausnir fyrir þennan hóp með því að skipa ráðherranefndina, en það hefur ekkert gerst.“

Frétt mbl.is: Íhuga málsókn vegna lánsveða

Eva H. Baldursdóttir, ein forsvarsmanna Lánsveðshópsins.
Eva H. Baldursdóttir, ein forsvarsmanna Lánsveðshópsins. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert