Oft hefur verið mjög hált á veginum frá Landeyjahöfn að Selfossi í haust. Þar hafa orðið nokkur óhöpp og slys vegna hálkunnar, að því er Eyjafréttir greina frá.
Nokkrir Eyjamenn eru í hópi þeirra sem lent hafa í vandræðum á þessari leið. Ferjurnar Herjólfur og Baldur hafa siglt á milli Landeyjahafnar og Eyja nánast upp á hvern dag í haust og hafa farþegar og bílar aldrei verið fleiri en nú.
„Guðmundur Guðbrandsson, verkstjóri hjá Vegagerðinni á Selfossi, kannaðist við þetta og sagði að margir hefðu kvartað. Þegar kom að því að taka Landeyjahöfn í notkun kviðu margir Eyjamenn fyrir því að keyra til Reykjavíkur í náttmyrkri og hálku. Nú er það reyndin án þess að gerðar hafi verið ráðstafanir til að bregðast við aukinni umferð í skammdeginu. „Þetta hefur verið sérstaklega erfitt í haust, hitinn mikið í kringum núllið og þá getur hlaðist upp hálka með litlum fyrirvara,“ sagði Guðmundur. „Umferð er heldur ekki það mikil að saltið sem borið er á veginn nái að virka sem skyldi,“ bætti hann við.“
Guðmundur sagði að vegum væri skipt upp í flokka eftir álagi. Vegurinn milli Reykjavíkur og Selfoss lendir í fyrsta flokki og er honum vel sinnt. Vegurinn austan Selfoss er í lægri flokki og vegurinn austan Hvolsvallar í enn lægri flokki. Hann sagði að vegurinn niður að Landeyjahöfn hefði verið þeim mjög erfiður og margar kvartanir hefðu borist.