Stefán Einar: Sannleikanum til varnar

Stefán Einar Stefánsson
Stefán Einar Stefánsson

Stefán Einar Stefánsson, formaður VR, svarar í grein í Morgunblaðinu í dag umfjöllun DV um sig og tvo aðra starfsmenn VR. Í greininni, sem ber titilinn Sannleikanum til varnar, segir Stefán Einar að vegið hafi verið að æru og starfsheiðri nafngreindra einstaklinga og krefst hann þess að blaðið biðjist afsökunar á umfjölluninni.

Hér á eftir fer grein Stefáns Einars í heild sinni:

„Í prentútgáfu og vef DV þann 3. desember síðastliðinn er vegið að æru og starfsheiðri nafngreindra einstaklinga. Þar er vegið að saklausum einstaklingum sem vandir eru að virðingu sinni. Virðist það gert af ásetningi, enda hafði ítrekuð tilraun verið gerð til þess dagana á undan að koma staðreyndum á framfæri er varða umfjöllun blaðsins, við Inga Frey Vilhjálmsson blaðamann. Það bar því miður ekki árangur. Varða þær allar aðdróttanir og villandi umfjöllun sem virðist miða að því að gera ráðningu Söru Lindar Guðbergsdóttur til VR tortryggilega, jafnvel þó engin efni standi til þess. Um árabil hafa blaðamenn DV haft uppi ærumeiðandi ummæli í garð undirritaðs. Það hefur vanist þó ótrúlegt megi virðast. En nú þegar blaðið vegur að öðru fólki í sama tilgangi er mál að linni. Því vil ég koma eftirfarandi atriðum á framfæri opinberlega.

1. Þegar Sara Lind Guðbergsdóttir var ráðin til VR í mars 2012 þekktust hún og undirritaður ekki persónulega.

2. Þegar Sara Lind var ráðin til VR var henni ásamt tveimur öðrum umsækjendum falið að leiða uppbyggingu nýrrar þjónustu við atvinnuleitendur innan félagsins.

3. Ráðningarferlið var unnið í samráði við Capacent en leitt af framkvæmdastjóra VR. Þar sóttu margir hæfir einstaklingar um og úr vöndu var að ráða.

4. Til grundvallar vali framkvæmdastjóra VR á Söru Lind í starf deildarstjóra voru fimm atriði helst tiltekin. (a) Sara Lind hafði um þriggja ára starfsreynslu á stjórnsýslusviði Vinnumálastofnunar. (b) Hún vann á þessum tíma að rannsókn á viðurlagaákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar. (c) Hún hafði unnið rannsókn á 74. grein stjórnarskrárinnar um skylduaðild að félögum. (d) Á þessum tíma var hún með BA-próf í lögfræði og var við það að ljúka meistaranámi í sömu grein þar sem hún hafði lagt sérstaka áherslu á stjórnsýslurétt. Enginn lögfræðingur starfaði hjá VR á þessum tíma. (e) Sara Lind sýndi forystuhæfileika og hafði skýra sýn á það verkefni sem félagið stóð frammi fyrir að taka við. (f) Sara Lind fékk afburðagóð meðmæli frá því fólki sem með henni starfaði á þeim tíma, ásamt umsögn sviðsstjóra Þróunarsviðs VR sem hafði reynslu af samstarfi við hana á vettvangi úthlutunarnefndar Vinnumálastofnunar.

5. Því er haldið fram að stjórnendur VR hafi „sviðsett“ fyrrgreint ráðningarferli og að fyrirfram hafi verið ákveðið að ráða tiltekinn umsækjanda. Sú fullyrðing felur í sér aðdróttanir í garð framkvæmdastjóra VR sem illt er að sitja undir. Þeir sem þekkja til hennar starfa vita að hún myndi ekki láta hafa sig út í svo ljótan leik.

Þessar staðreyndir varpa einhverju ljósi á það hversu villandi og meiðandi umfjöllun DV frá mánudeginum síðasta eru. Í ljósi þessa hefur lögmaður minn krafist þess í dag af Inga Frey Vilhjálmssyni og DV að undirritaður, Sara Lind Guðbergsdóttir og Helga Árnadóttir verði beðin afsökunar á umfjöllun þeirra um okkur. Ég krefst þess að það verði gert á forsíðu DV í næsta tölublaði þess. Verði forsvarsmenn blaðsins ekki við því, áskil ég okkur rétt til þess að vernda orðspor okkar og starfsheiður með þeim aðferðum sem okkur eru tiltækar og siðuðu fólki sæmir.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert