Verðtryggingin er ólögleg og í andstöðu við Evrópulöggjöf um neytendavernd, segir Elvira Mendez Pinero, dósent í Evrópurétti við Háskóla Íslands.
Hún segist hafa komið niðurstöðu sinni á framfæri við viðskiptanefnd Alþingis í maí síðastliðnum.
„Þar fann ég fyrir miklum áhuga á niðurstöðu minni en ég veit ekki til þess, að til standi að breyta löggjöf um verðtryggingu. Þingið þarf engu að síður að taka þessa umræðu og búa til gegnsærri leiðir fyrir fólk til þess að fjármagna húsnæðiskaup. Lögin eru skýr,“ segir Elvira.
Elvira segir verðtryggingu brjóta gegn neytendaverndarlögum með tvennum hætti. Annars vegar sé það tilgreint í neytendalögum að lántaki verði að geta séð hvernig höfuðstóll lánsins muni þróast út lánstímann. Hins vegar megi ekki misbjóða lántaka með því að breyta lánsupphæð eftir á.
„Fjármálastofnanir eiga að reikna húsnæðislánin út fyrir fram en á Íslandi breytist upphæð höfuðstólsins eftir á vegna verðtryggingarinnar. Það er í andstöðu við neytendaverndarlög,“ segir Elvira.
„Ég kom þessu á framfæri við alþingismenn. Þeir töldu sumir að þetta skipti engu máli þar sem á endanum myndi lántakandi greiða sömu upphæð. En það er í fyrsta lagi ekki rétt og í öðru lagi snýst málið ekki um það. Þetta snýst um að neytendur standa uppi með alla áhættu af verðbólgunni sem reiknast á lánin eftir á. Þetta eru í raun okurlán þar sem verðbólgan, sem er háð óvissuþáttum, fellur á neytendur með tvöföldum hætti, bæði í gegnum vexti og verðbætur,“ segir Elvira.
Hún segir að fjármálastofnanir séu varðar af verðbólgunni og taki enga áhættu með lánveitingu. Þær hafi í raun innri hvata til þess að veita lánsfé til húsnæðiskaupa þar sem þær hagnist á verðbólgunni sem þær taki þátt í að skapa með lánveitingum sínum.
Elvira vísar til Evrópulaga um neytendavernd nr. 2008/48 sem segja að upplýsingar um greiðslur lána verði að vera lántakanum ljósar fyrirfram á gagnsæjan hátt. Neytendaverndarlögin voru innleidd á Íslandi í gegnum EES-samninginn árið 1994. Gerðar voru breytingar á þeim samkvæmt lögum nr. 179 frá 20. desember 2000 þegar þau voru útvíkkuð þannig að þau næðu einnig til lána sem veitt eru neytendum til öflunar íbúðarhúsnæðis.
„Ef þessu gagnsæi er ekki fyrir að fara er samningurinn ógildur, eða í það minnsta hluti hans. Það var til að mynda niðurstaða íslenskra dómstóla um gengistryggðu lánin að sá hluti samningsins sem náði til höfuðstólsins var gildur, en sá hluti samningsins sem náði til vaxta, afborgana o.s.frv., var ógildur,“ segir Elvira.
Aðspurð hvers vegna slík sjónarmið hafi ekki komið fram með eins afgerandi hætti fyrr segir Elvira að málefnið sé flókið. Þar sem hún hafi sérþekkingu á neytendaverndarlögum Evrópu hafi hún fengið styrk frá Háskóla Íslands til þess að setja sig inn í málið.
Hún segir að hagfræðingar hafi margir hverjir hlaupið til og bent á að verðtryggingin gerði það að verkum að hægara væri um vik fyrir almenning að festa kaup á húsnæði. „Ég er í sjálfu sér ekki ósammála þessum málflutningi. Þ.e. að verðtryggingin auðveldi fólki að fá lán, en það breytir því ekki að það er andstætt neytendaverndarlögum ef lántaki veit ekki hversu mikið hann mun borga af láninu fyrir fram,“ segir Elvira. „Ég er að vísa til laganna. Hagfræðingar hafa önnur sjónarmið að leiðarljósi,“ segir hún.
Elvira telur að niðurstaða sín um ólögmæti verðtryggingar eigi að vera leiðarljós fyrir Alþingi til framtíðar.
„Ég skrifaði doktorsritgerð um réttindi neytenda árið 1997 og því hefur þetta efni verið mér hugfólgið í langan tíma,“ segir Elvira. Hún segist gera sér grein fyrir því að möguleikar almennings til að fjármagna húsnæðiskaup muni breytast mikið ef verðtryggingin verður afnumin. „Samkvæmt grófum útreikningum mínum, miðað við verðbólguspár, þá myndu óverðtryggðir vextir íbúðalána til skamms tíma verða á milli 15-20%. Að öllum líkindum myndu færri hafa efni á stóru húsnæði, en á móti myndi húsnæðisverð að öllum líkindum lækka umtalsvert,“ segir Elvira.