„Við viljum heyra í þeim hjúkrunarfræðingum sem sagt hafa upp og hvaða ástæður liggja þar að baki,“ segir Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum, um næstu skref sjúkrahússins varðandi uppsagnir 254 hjúkrunarfræðinga spítalans. Sigríður minnir jafnframt á að undanfarið og áfram verði unnið í samvinnu við stjórnvöld að því að leita lausna á vinnudeilunni.
Sigríður segir að næsti yfirmaður hvers hjúkrunarfræðings sem sagt hefur upp störfum muni á næstu dögum boða viðkomandi í viðtal til að ræða málin. „Við viljum tryggja að allir fái tækifæri til að segja hvað þeim býr í brjósti.
Það er auðvitað mjög alvarlegt þegar svona margir starfsmenn segja upp,“ segir Sigríður en tekur fram að með viðtölunum sé ekki verið að reyna að fá fólk ofan af því að segja upp. „Við verðum að vita hvaða ástæður liggja þarna að baki og það getur hugsanlega hjálpað okkur til þess að leysa málin.“
Hjúkrunarfræðingarnir sem sagt hafa upp starfa flestir á stærstu sviðum spítalans, s.s. skurð- og lyflækningasviði.
Uppsagnirnar munu að óbreyttu taka gildi 1. mars.
„Ef þessi hópur gengur út mun skapast hér mjög alvarlegt ástand og það þyrfti að breyta þessum spítala,“ segir Sigríður. „Það er ekki hægt að reka spítala án hjúkrunarfræðinga.“
Hún segir að enn sé verið að leita allra leiða til að leysa vandann og á það sé lögð mikil áhersla. „Þessi vandi skapast vegna þeirra aðstæðna sem við höfum þurft að búa við. Hér hefur verið skorið niður rekstrarfé um 23% á nokkrum árum þannig að hér liggur ekkert fé á lausu eins og staðan er núna.“
Á LSH starfa yfir 1.300 hjúkrunarfræðingar og því augljóst að þjónusta spítalans yrði í uppnámi ef uppsagnirnar verða að raunveruleika.
Sigríður segir starfsfólk LSH hafa unnið þrekvirki við erfiðar vinnuaðstæður og gríðarlegt álag.
„Fólk er óánægt með launakjörin. Það eru færri að vinna verkin. Sjúklingum fjölgar. Svo vinnur fólk hér við erfiðar aðstæður í húsum sem styðja ekki við starfsemina. Þetta hjálpast allt að. Það reynir hér á þolrifin,“ segir hún. „Fólk vill geta farið heim að loknum vinnudegi og fundist það hafa leyst öll sín verkefni. Það reynir á þegar álagið er mikið dag eftir dag.“