Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gerði að umtalsefni við upphaf þingfundar á Alþingi í dag uppsagnir hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum og sagði að málið hlyti að vera öllum landsmönnum áhyggjuefni og ekki síst sjúklingum og starfsmönnum spítalans.
Sagði Bjarni að tímabært væri að Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra gerði grein fyrir því með hvaða hætti yrði brugðist við stöðunni. Ráðherrann tók undir með Bjarna að staðan væri grafalvarleg og ljóst að Landspítalinn yrði ekki rekinn án þeirra hjúkrunarfræðinga sem sagt hefðu störfum sínum lausum nema grundvallarbreytingar yrðu á rekstri hans.
Sagðist Guðbjartur vona að ekki kæmi til þessara uppsagna. Viðræður hefðu átt sér stað innan stofnunarinnar um málið og hann hefði sjálfur rætt við félag hjúkrunarfræðinga fyrir nokkru. Þar hefði vandinn verið greindur annars vegar sem mikil óánægja með launakjör og að ekki væri til staðar stofnanasamningur. Benti hann á í því sambandi að kjarasamningur væri í gildi sem næði fram í mars 2014.
Hins vegar væri verið að berjast gegn því að einkum kvennastéttir væru verr launaðar en ýmsar hefðbundnar karlastéttir. Þetta hvort tveggja væri undir. Landspítalinn sjálfur væri að vinna í málinu ásamt fjármálaráðuneytinu og velferðarráðuneytinu til þess að kanna leiðir til þess að liðka til og hvað þurfi til þess að tryggja að hjúkrunarfræðingar sjái sér áfram fært og vilji starfa á spítalanum.
Ekki verið krafist breyttrar efnahagsstefnu
Bjarni gaf lítið fyrir svör Guðbjarts og sagði að enn kæmu engin skýr svör um það hvað ríkisstjórnin ætlaði að gera í málinu. Sagðist hann telja að í því kristallaðist vandi sem ríkisstjórnin gæti ekki leyst. Ef standa ætti undir þeim væntingum sem fólk gerði til velferðarkerfisins væri ekki hægt að fylgja þeirri efnahagsstefnu sem fylgt hefði verið með sífelldum skattahækkunum og minni fjárfestingum.
Guðbjartur svaraði því til að hann hefði ekki heyrt á kröfum hjúkrunarfræðinga að málið snerist um breytta efnahagsstefnu. Sagði hann ekki hægt að ætlast til þess að hann sem velferðarráðherra tilkynnti hvað dygði til þess að koma til móts við kröfur hjúkrunarfræðinga ef verið væri að fara í viðræður um það. Það væri hrokafullt af honum. „Margt verður afar erfitt að koma til móts við, það segir sig bara sjálft. En ég hef ekki trú á að því þær lausnir sem hér voru nefndar af háttvirtum málshefjanda dugi,“ sagði Guðbjartur.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hélt þá áfram umræðunni og vakti máls á því að Guðbjartur hefði enn ekki svarað því með hvaða hætti ríkisstjórnin ætlaði að taka á málinu. Ráðherrann hefði farið ágætlega yfir hver staðan væri, hverjar kröfurnar væru og úrlausnarefnin en ekkert sagt um það með hvaða hætti hann ætlaði að beita sér í málinu.
Guðbjartur ítrekaði að viðræður hefðu átt sér stað innan Landspítalans og jafnfram hefði mögulegar lausnir verið skoðaðar af fulltrúum fjármálaráðuneytisins og velferðarráðuneytisins. „Svo langt erum við ekki komin að segja nákvæmlega hvað þarf til eða hversu miklu við getum spilað út.“