Kjaraviðræðum Félags grunnskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur verið vísað til ríkissáttasemjara.
Í frétt á vef Kennarasambandsins segir að í viðræðunum undanfarna mánuði hafi ekki verið lagðar fram eiginlegar kröfugerðir. Gengið var út frá sameiginlegri vinnu samningsaðila meðal annars viðamikilli skoðanakönnun sem rúmlega 60% grunnskólakennara tóku þátt í fyrr á þessu ári. Samninganefnd kennara segir að kennarar vinni mun meira en þeir fá greitt fyrir, verkefnum kennara hafi fjölgað mikið með breyttum áherslum í skólastarfi, álag hafi aukist mjög mikið og tími til að sinna verkefnum sé ekki nægur og trú kennara á stefnuna um skóla án aðgreiningar sé ekki mikil miðað við framkvæmdina eins og hún er í dag af hálfu sveitarfélaganna.
Mikilvægt sé að hagsmunir nemenda séu hafðir að leiðarljósi og kennurum gert kleift að sinna fjölbreyttu starfi sínu. Til að mæta þessu lagði Samninganefnd FG fram hugmyndir að leiðum sem m.a. gætu minnkað álag og mætt þeim breytingum sem orðið hafa á starfsumhverfi grunnskólakennara. Þau atriði sem FG lagði áherslu á að rædd yrðu eru:
Kennarasambandið segir að hugmyndir sveitarfélaganna hafi fyrst og fremst beinst að því að binda alla vinnu kennara á vinnustað á bilinu 8 til 17. Slíkt hafi verið hægt allt frá árinu 2008 og hafa nokkrir skólar nýtt sér það frá þeim tíma.
Nú tekur ríkissáttasemjari við viðræðunum og mun stýra þeim. Næsti fundur hefur verið boðaður mánudaginn 10. desember.