„Pólitíkin verður nú líklega býsna mikið upptekin við annað eftir áramót og mér finnst því ekkert ósennilegt að það yrði hægt á þessu ferli eða það jafnvel lagt til hliðar um sinn fram yfir kosningar. En þetta er samt engin ákvörðun sem hefur verið tekin.“
Þetta segir Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og formaður utanríkismálanefndar Alþingis, í samtali við mbl.is og vísar þar til umsóknarinnar um inngöngu í Evrópusambandið. Hann segir að þetta sé einfaldlega ákveðið viðhorf sem hann og Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, hafi viðrað síðastliðið haust að gæti komið til álita.
„Ég held að það gerist nú nánast af sjálfu sér að það muni hægja á þessu. Það þýðir ekki að það sé ekki hægt að halda áfram með það sem þegar er í gangi. En það er heldur ólíklegt að menn fari að opna eitthvað nýtt,“ segir Árni.
-Þeir sem verða í ríkisstjórn að loknum næstu þingkosningum, hverjir sem þeir verða, gætu þá væntanlega endurmetið stöðuna eftir kosningarnar?
„Jájá, hugsanlega gæti Alþingi þá tekið nýja ákvörðun eða hvernig sem það verður,“ segir Árni að endingu.
Nánar verður rætt við Árna í Morgunblaðinu á morgun.