Samtök atvinnulífsins segja að verðtryggðar skuldir heimilanna muni hækka um 1.256 milljónir króna á næsta ári vegna hækkunar vörugjalda tilteknar mat- og drykkjarvörur.
Fyrir Alþingi liggur frumvarp ríkisstjórnarinnar um hækkun vörugjalda á tilteknar mat- og drykkjarvörur. Samkvæmt frumvarpinu er áætlað að skattahækkunin skili ríkissjóði 800 milljóna kr. viðbótartekjum á ársgrundvelli. Breyttum lögum er ætlað að taka gildi 1. mars 2013. Ekki er ljóst hvort tekjuáætlunin nái til 10 mánaða eða alls ársins en ef hún er byggð á 10 mánaða innheimtu gjaldanna er skattahækkunin á ársgrundvelli 960 milljónir kr.
Samkvæmt frumvarpinu er áætlað að hækkun vörugjaldanna hækki vísitölu neysluverðs um 0,1% á næsta ári. Það mat er byggt á því að árleg einkaneysla landsmanna innanlands nemur um 770 milljörðum króna á verðlagi októbermánaðar þessa árs. 800 milljóna kr. skattahækkun á þessar vörur veldur því 0,1% hækkun á einkaneyslureikningi landsmanna.
„Verðtryggðar skuldir heimilanna við Íbúðalánasjóð, banka, lífeyrissjóði og aðrar lánastofnanir námu 1.256.000 milljónum kr. í októberlok þessa árs samkvæmt hagtölum Seðlabankans. Þær munu því hækka um 1.256 milljónir króna á næsta ári vegna hækkunar vörugjaldanna.
Skuldir heimilanna hækka því meira á næsta ári en tekjur ríkissjóðs vegna þessarar skattahækkunar. Sé hins vegar reiknað með því að skattahækkunin nemi 960 milljónum kr. á ársgrundvelli í stað 800 milljóna kr. hækkar vísitala neysluverðs um 0,125% og skuldir heimilanna um 1.570 milljónir,“ segir á vef Samtaka atvinnulífsins.