Heiðurslaunin stórhækka í kreppunni

Nokkur deilumál fæðast og deyja en ganga stöðugt aftur og eitt þeirra er fjárstuðningur ríkisins við listamenn. Að þessu sinni hefur vakið athygli breytingatillaga við fjárlög en þar er m.a. kveðið á um að heiðurslaun verði nær tvöfölduð (og reyndar ríflega það til þeirra fáu á listanum sem eru undir sjötugu). Þessi hækkun er hins vegar bein afleiðing af nýjum lögum um heiðurslaun sem samþykkt voru samhljóða og með litlum umræðum í vor. Þar er tilgreint að heiðurslaun skuli vera jafn há starfslaunum.

„Meginástæðan fyrir því að miða heiðurslaunin við starfslaun listamanna var að fólk á listanum getur ekki líka fengið starfslaun, þetta kom út eins og mismunun gagnvart þeim, þau fengu mun minna en starfslaun,“ segir Björgvin G. Sigurðsson, fyrsti flutningsmaður frumvarpsins um heiðurslaun.

Listafólk hefur oft ótryggar tekjur og lítil lífeyrisréttindi. En gagnrýnt er að á tímum niðurskurðar og skattpíningar skuli samt vera til nær 40 milljónir aukalega til þessarar viðurkenningar. Og hugsunin að baki heiðurslaunum er býsna þokukennd.

Frægð og vinsældir virðast ekki ráða ferðinni þegar verið er að velja: Björk er ekki á listanum, ekki heldur Arnaldur. Hvað er það sem ræður? Heimildarmenn segja að þótt aðallega sé um heiður að ræða sé þögult samkomulag um að viðtakandi skuli yfirleitt vera kominn a.m.k. vel yfir miðjan aldur og peningarnir skipti hann eða hana einhverju máli. Undantekningar hafa þó verið gerðar frá þessum viðmiðum.

Pólitík og lifibrauð

Oft hafa pólitískar skoðanir haft áhrif þegar listamenn hafa hlotið eða ekki hlotið heiður, á sínum tíma náðist ekki samstaða í borgarráði um að gera sjálfstæðismanninn Tómas Guðmundsson að heiðursborgara Reykjavíkur! Innbyrðis togstreita milli listgreina og einstaklinga í Bandalagi íslenskra listamanna, BÍL, birtist líka í valinu. „Þar tíðkast oft hin breiðu spjótin og gæfustu karlar og konur fyllast trylltum vígamóði enda mikið í húfi, sjálft lifibrauðið,“ segir einn viðmælandinn. BÍL hefur lagt til að úthlutun heiðurslaunanna sé á hendi „faglega skipaðrar nefndar“ en þá myndu þingmenn aðeins ákveða heildarfjárhæðina. Og missa völd.

En eining náðist á Alþingi í vor um að setja loks lög um heiðurslaun listamanna og tóku þau gildi í september en þingið hafði frá 1991 ávallt gert sérstaka samþykkt um þessi laun þar sem lagarammann skorti. Í nýju lögunum er sett þak á fjöldann, 25 listamenn fá árlega heiðurslaun sem skuli vera jafnhá starfslaunum listamanna og veitt að fullu til 70 ára aldurs en eftir það séu þau 80% af starfslaunum.

Fimm af þeim sem gert er ráð fyrir að fái nú heiðurslaun eru undir sjötugu, hinir eru eldri. Starfslaun listamanna eru nú tæp 300 þúsund krónur á mánuði, heiðurslaun voru áður liðlega helmingur þeirra fjárhæðar. Alls er gert ráð fyrir að framlögin verði liðlega 500 milljónir króna á næsta ári.

Flokkarnir vilja yfirleitt að sátt ríki um þessi mál en framsóknarmenn vilja þó leggja heiðurslaunin af og veita peningana fremur til að styrkja unga listamenn. Aðrir benda á að heiðurslaun eru ekki tekjutengd þótt öllum sé ljóst að aðstæður séu mjög mismunandi hjá þeim sem sæmdina hljóta. En þess bera að geta að jafnt starfslaun sem heiðurslaun eru skattskyld.

Nöfn þeirra sem eiga að fá heiðurslaun

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert