Segir stjórn FME vanhæfa

Víglundur Þorsteinsson.
Víglundur Þorsteinsson. Kristinn Ingvarsson

Að sögn Víg­lunds Þor­steins­son­ar, fyrr­ver­andi stjórn­ar­for­manns og eig­anda BM Vallár, sýn­ir ramma­samn­ing­ur, sem und­ir­ritaður var þann 17. júlí 2009 af Stein­grími J. Sig­fús­syni fjár­málaráherra og Björk Þór­ar­ins­dótt­ur fyr­ir hönd rík­is­bank­ans Nýja Kaupþings hf. og skila­nefnd Kaupþings, að Fjár­mála­eft­ir­litið var virk­ur þát­tak­andi í einka­væðing­ar­ferli Nýja Kaupþings, nú Ari­on banka.

Á blaðamanna­fundi sem hófst klukk­an 14:00 á Höfðatorgi í dag greindi Víg­lund­ur frá þessu og lagði þar fram þau gögn sem hér um ræðir.

Tel­ur Víg­lund­ur því að FME hafi verið að rann­saka sig sjálft þegar hann kærði at­ferli Ari­on banka til stofn­un­ar­inn­ar en eins og mbl.is greindi frá í síðustu viku þá gerði FME eng­ar at­huga­semd­ir við vinnu­brögð bank­ans í tengsl­um við end­ur­skipu­lagn­ingu og síðar gjaldþrot B.M. Vallár hf. Því hafi stjórn og for­stöðumenn FME verið van­hæf­ir sam­kvæmt ákvæðum stjórn­sýslu­laga til að fjalla um mál­efni viðskipta­vina fjár­mála­fyr­ir­tækja á borð við Ari­on banka.

Í bréfi sem fjár­mála- og efna­hags­ráðuneytið sendi Víg­lundi þann 5. sept­em­ber 2012 kem­ur fram að fyrr­nefnd­ur samn­ing­ur sé „nokk­urs kon­ar vilja­yf­ir­lýs­ing og und­an­fari annarra samn­inga, sem gerðir voru um miðjan ág­úst 2009.“ Er það álit Víg­lund­ar að ramma­samn­ing­ur­inn í heild sinni fari í bága við meðal­hófs og jafn­ræðis­reglu stjórn­sýslu­laga og tel­ur hann einnig að ekki verði bet­ur séð en að samn­ing­ur­inn brjóti gróf­lega gegn lög­um 161/​2002 um fjár­mála­fyr­ir­tæki svo sem 1. gr., 19. gr. og 58. gr. lag­anna auk mögu­lega annarra ákvæða þeirra. Þá tel­ur Víg­lund­ur að samn­ing­ur­inn gangi þvert gegn neyðarlög­un­um sem sett voru haustið 2008.

Að sögn Víg­lund­ar er svo­kallaðan „af­tök­ulista“ að finna í fimmta viðauka samn­ings um yf­ir­töku skila­nefnd­ar Kaupþings á Nýja Kaupþing hf., dag­sett­um þann 3. sept­em­ber 2009. Víg­lund­ur fékk samn­ing­inn af­hend­an frá fjár­mála- og efna­hags­ráðuneyt­inu en tvö atriði voru þó felld út úr því ein­taki, ann­ars veg­ar 9. grein samn­ings­ins sem varðar framsal á til­tekn­um eign­um milli gamla og nýja bank­ans og hins­veg­ar fimmti viðauki samn­ings­ins sem varðar verðlaus­ar eign­ir (e. zero value as­sets).

Þá seg­ir Víg­lund­ur að Ari­on banki hafi verið í þeirri stöðu að hann hafi ekki getað skila rík­is­skulda­bréf­um sem hon­um voru af­hent fyr­ir hluta­fé. Því hafi sú leið verið far­in að Íslenska ríkið gaf út ábyrgðar­yf­ir­lýs­ingu um eigna­safn Dróma sem ríkið tók síðan að hand­veði fyr­ir rík­is­skulda­bréf­um sem bank­inn gat ekki skilað. Víg­lund­ur bend­ir á að þarna sé vænt­an­lega kom­in skýr­ing á því af hverju eigna­safnið var ekki flutt yfir í Ari­on­banka ásamt skuld­un­um.

Loks seg­ir Víg­lund­ur að laus­lega metið, ef horft sé á upp­gjör bank­anna pr. 30.09.2012, sýn­ist „end­ur­vinnslu­feng­ur vog­un­ar­sjóðanna“ á nýju bönk­un­um um­fram neyðarlög­in vera kom­inn yfir 300 millj­arða króna.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert