Að sögn Víglunds Þorsteinssonar, fyrrverandi stjórnarformanns og eiganda BM Vallár, sýnir rammasamningur, sem undirritaður var þann 17. júlí 2009 af Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráherra og Björk Þórarinsdóttur fyrir hönd ríkisbankans Nýja Kaupþings hf. og skilanefnd Kaupþings, að Fjármálaeftirlitið var virkur þáttakandi í einkavæðingarferli Nýja Kaupþings, nú Arion banka.
Á blaðamannafundi sem hófst klukkan 14:00 á Höfðatorgi í dag greindi Víglundur frá þessu og lagði þar fram þau gögn sem hér um ræðir.
Telur Víglundur því að FME hafi verið að rannsaka sig sjálft þegar hann kærði atferli Arion banka til stofnunarinnar en eins og mbl.is greindi frá í síðustu viku þá gerði FME engar athugasemdir við vinnubrögð bankans í tengslum við endurskipulagningu og síðar gjaldþrot B.M. Vallár hf. Því hafi stjórn og forstöðumenn FME verið vanhæfir samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga til að fjalla um málefni viðskiptavina fjármálafyrirtækja á borð við Arion banka.
Í bréfi sem fjármála- og efnahagsráðuneytið sendi Víglundi þann 5. september 2012 kemur fram að fyrrnefndur samningur sé „nokkurs konar viljayfirlýsing og undanfari annarra samninga, sem gerðir voru um miðjan ágúst 2009.“ Er það álit Víglundar að rammasamningurinn í heild sinni fari í bága við meðalhófs og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og telur hann einnig að ekki verði betur séð en að samningurinn brjóti gróflega gegn lögum 161/2002 um fjármálafyrirtæki svo sem 1. gr., 19. gr. og 58. gr. laganna auk mögulega annarra ákvæða þeirra. Þá telur Víglundur að samningurinn gangi þvert gegn neyðarlögunum sem sett voru haustið 2008.
Að sögn Víglundar er svokallaðan „aftökulista“ að finna í fimmta viðauka samnings um yfirtöku skilanefndar Kaupþings á Nýja Kaupþing hf., dagsettum þann 3. september 2009. Víglundur fékk samninginn afhendan frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu en tvö atriði voru þó felld út úr því eintaki, annars vegar 9. grein samningsins sem varðar framsal á tilteknum eignum milli gamla og nýja bankans og hinsvegar fimmti viðauki samningsins sem varðar verðlausar eignir (e. zero value assets).
Þá segir Víglundur að Arion banki hafi verið í þeirri stöðu að hann hafi ekki getað skila ríkisskuldabréfum sem honum voru afhent fyrir hlutafé. Því hafi sú leið verið farin að Íslenska ríkið gaf út ábyrgðaryfirlýsingu um eignasafn Dróma sem ríkið tók síðan að handveði fyrir ríkisskuldabréfum sem bankinn gat ekki skilað. Víglundur bendir á að þarna sé væntanlega komin skýring á því af hverju eignasafnið var ekki flutt yfir í Arionbanka ásamt skuldunum.
Loks segir Víglundur að lauslega metið, ef horft sé á uppgjör bankanna pr. 30.09.2012, sýnist „endurvinnslufengur vogunarsjóðanna“ á nýju bönkunum umfram neyðarlögin vera kominn yfir 300 milljarða króna.