Þarf að greiða upp 15 milljarða í ár

Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir að horfur séu á að uppgreiðslur lána hjá Íbúðalánasjóði á þessu ári verði um 15 milljarðar, en talsvert hefur verið um að fólk taki lán á lægri vöxtum hjá bönkunum til að greiða upp lán Íbúðalánasjóðs.

Vandi Íbúðalánasjóðs var ræddur á Alþingi í dag að frumkvæði Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins.

Bjarni sagði að vandi sjóðsins væri af tvennum toga, annars vegar afskriftaþörf vegna fjárhagsvanda þeirra sem tekið hafa lán hjá sjóðnum og hins vegar vegna uppgreiðsluvanda. Hann sagði að þessi uppgreiðsluvandi hefði lengi verið fyrirsjáanlegur, en hann er til kominn vegna þess að árið 2004 var gerð sú kerfisbreyting að lántakar gátu greitt upp lán sjóðsins, en sjóðurinn gat hins vegar ekki greitt upp þau skuldabréf sem fjármögnun hans byggðist á.

Bjarni minnti á að árið 2010 hefði þáverandi félagsmálaráðherra sagt að eigið fé sjóðsins myndi halda áfram að lækka ef ekkert yrði gert. Það vantaði 22 milljarða til að koma eigin fé upp í 5%. Og tvo milljarða til viðbótar til að viðhalda því. Á daginn hefði komið að um mikið vanmat væri að ræða því að það vantaði 22 milljarða til viðbótar til að koma eigin fé sjóðsins upp í 3%.

Bjarni sagði að markaðsvirði krafna Íbúðalánasjóðs úti á markaði væri um 200 milljörðum lægra en bókfært er í bókhaldi Íbúðalánasjóðs.

Íbúðalánasjóður situr uppi með áhættuna

Guðbjartur Hannesson sagði að rekja mætti vanda Íbúðalánasjóðs til kerfisbreytinga frá árinu 2004. Ákvarðanir sem þá voru teknar sýndu að stjórnmálamenn þyrftu að vanda sig. Lántakendur gætu greitt upp lán en Íbúðalánasjóður gæti ekki gert það og sæti uppi með alla áhættuna.

Guðbjartur sagði að nú væri mikilvægast að menn tækju sameiginlega á vanda sjóðsins. Ríkisstjórnin hefði sett fram tillögur sem ætti eftir að vinna betur úr.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði að þetta mál sýndi hvers konar mistök hefðu verið gerð við stofnun nýju bankanna. Þá hefði átt að flytja öll íbúðalán bankanna yfir til Íbúðalánasjóð, en lánin fengust þá með miklum afslætti.

Björn Valur Gíslason sagði sérkennilegt af Sigmundi Davíð að setja málið þannig upp að vandinn hefði átt sér stað eftir hrun. Vandi sjóðsins væri allur kominn til fyrir árið 2009.

Þór Sari gagnrýndi harðlega pólitísk afskipti af Íbúðalánasjóði. Fulltrúar flokkanna hefðu setið í stjórn sjóðsins. Forstjórinn hefði verið pólitískt skipaður og það sama hefði átt við forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Stjórnendur sjóðsins hefðu gert mikil mistök og áhættustýring sjóðsins hefði verið slæm.

Vandi Íbúðalánasjóðs vanmetinn

Pétur H. Blöndal sagðist telja að vandi Íbúðalánasjóðs væri vanmetinn. Það væri ekki um annað að ræða en að skipta sjóðnum upp og láta kröfuhafa fá núverandi sjóð og stofna síðan nýjan sjóð sem lánaði efnalitlu fólki og fólki á landsbyggðinni þar sem markaðsvirði eigna væri lægra. Þessi sjóður yrði miklu minni en núverandi sjóður. Pétur sagði að það ætti ekki að vera ríkisábyrgð á lánum til húsnæðiskaupa. Við værum of viljug að veita ríkisábyrgðir.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir tók undir þetta með Pétri. Hún minnti einnig á að Alþingi hefði samþykkt tillögu um rannsókn á starfsemi Íbúðalánasjóðs. Von væri á niðurstöðum þessarar rannsóknar í upphafi næsta árs.

Gunnar Bragi Sveinsson varði ákvarðanir Framsóknarflokksins frá árinu 2004. Hann sagði að á þessum tíma hefði verkamannabústaðakerfið verið komið í þrot og húsbréfakerfið hefði ekki gengið upp og þess vegna hefðu verið gerðar breytingar á kerfinu. Hann sagði vissulega rétt að ýmsir hefðu varað við þessari breytingu. Hann sagði að þeir pappírar sem voru gefnir út á þessum tíma hefðu verið betri söluvara, en það sem hefði hins vegar gerst var að bankarnir lögðu stuttu síðar til atlögu við sjóðinn. Uppgreiðslur lána á þessum tíma hefðu numið um 300 milljörðum og nú væri það sama að gerast aftur vegna lækkunar vaxta.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG, sagði að þessi saga væri sorgarsaga. Vandi Íbúðalánasjóðs hefði hafist með yfirboðum Framsóknarflokksins fyrir kosningarnar árið 2003. Seðlabankinn hefði varaði við þessu eins og kæmi fram í rannsóknarskýrslu Alþingis. Þennan vanda mætti skrifast á Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk.

Vill leggja á uppgreiðslugjald

Bjarni minnti á að Samfylkingin hefði farið með þennan málaflokk frá árinu 2007. Lausn á uppgreiðsluvanda sjóðsins hefði legði fyrir allan þennan tíma. Hún fælist í því að nýta heimild sjóðsins til að leggja á uppgreiðslugjald. Bjarni benti á að sjóðurinn hefði lánað 527 milljarða út á skuldabréf sem gerðu ráð fyrir heimild til að leggja á uppgreiðslugjald. 140 milljarðar hefðu verið lánaðir út á skuldabréf sem ekki væru með slíkt ákvæði. Þetta fólk hefði tekið lán á hærri vöxtum vegna þess að það vildi eiga möguleika á að greiða lánin upp, en það skipti hins vegar engu máli því þeir sem hefðu tekið hin lánin væru í sömu stöðu. Bjarni spurði hvers vegna ekki væri lagt á uppgreiðslugjald.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert