Útgjöldin 443 þúsund á mánuði

mbl.is/Jim Smart

Neysluútgjöld á heimili árin 2009–2011 voru 443 þúsund krónur á mánuði og hafa aukist um 0,4% frá tímabilinu 2008–2010. Vísitala neysluverðs hækkaði um 4,0% frá 2010 til 2011 og hafa heimilisútgjöldin dregist saman um 3,5% að teknu tilliti til verðbreytinga. Á heimili búa að meðaltali 2,4 einstaklingar.

Þetta kemur fram í rannsókn Hagstofunnar á útgjöldum heimilanna á árunum 2009-2011.

Ráðstöfunartekjur meðalheimilisins í rannsókninni voru 514 þúsund krónur á mánuði. Ráðstöfunartekjur flestra hópa voru hærri en útgjöld þeirra en neysluútgjöldin voru að meðaltali 86% af ráðstöfunartekjum.

Tekjur heimila, sem þátt tóku í rannsókninni 2009–2011, voru 1,1% hærri en tekjur heimila í rannsókninni 2008–2010. Ráðstöfunartekjur á heimili hækkuðu um 0,7% umfram útgjöld. Í rannsókninni nú eru neysluútgjöld að meðaltali 86% af tekjunum en voru 87% á tímabilinu 2008–2010.

Tekjur þess fjórðungs heimila sem hæstar tekjur hafði voru að jafnaði 147% hærri en þess fjórðungs sem lægstar tekjur hafði. Útgjöld þeirra tekjuhæstu voru 63% hærri en tekjuminnsta fjórðungsins.

Sá fjórðungur heimila sem mest útgjöld hafði eyddi 148% meira en sá fjórðungur sem hafði minnstu útgjöldin. Tekjur þeirra útgjaldahæstu voru 30% hærri en tekjur heimilanna í útgjaldalægsta fjórðungnum.

Í úrtaki voru 3.471 heimili, 1.799 þeirra tók þátt í rannsókninni og var svörun 51,8%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert