Landbúnaðarkafli aðildarviðræðna Íslands við ESB var ræddur á fundi utanríkismálanefndar í gær. Þar mættu fulltrúar Bændasamtakanna og Neytendasamtakanna.
Árni Þór Sigurðsson, formaður nefndarinnar, sagði að fulltrúar Bændasamtakanna hefðu skýrt hvers vegna þeir gengu af samningafundi um daginn. Það var vegna óánægju með undirbúning landbúnaðarkaflans, einkum það er lýtur að tollverndinni.
Neytendasamtökin gerðu grein fyrir sínum sjónarmiðum en þau eru andstæð sjónarmiði bænda um tollvernd. Árni Þór rifjaði upp nefndarálit utanríkismálanefndar frá 2009 þar sem lögð er áhersla á að tollverndin sé ríkur þáttur í stuðningi við íslenskan landbúnað. Verði hún ekki til staðar verði að tryggja sambærilegan stuðning sem geri landbúnaðinn jafnsettan sem fyrr.