Gæti aukið neyslu á sælgæti

Í greinargerð með frumvarpinu segir að talið sé að samtals …
Í greinargerð með frumvarpinu segir að talið sé að samtals sé sykurneysla landsmanna yfir 15.000 tonnum á ári. Morgunblaðið/Sigurgeir S.

Embætti landlæknis telur að frumvarp til laga um breytingar á lögum um vörugjald á matvælum gæti aukið neyslu á sælgæti, en samkvæmt frumvarpinu lækka vörugjöld á súkkulaði um 16 krónur á kíló og einnig á ýmsu öðru sælgæti og kexi.

Í umsögn landlæknis um frumvarpið segir að ekki verði séð að það markmið um að hækka vörugjöld til að hafa áhrif á manneldissjónarmið náist með þessum breytingum. Samkvæmt frumvarpinu hækka vörugjöld á sykri úr 60 í 210 kr./kg og taka vörugjöld af öðrum vörum mið af hlutfalli viðbætts sykurs og sætuefna í viðkomandi vöru.

„Þetta leiðir til þess að afnumið verður vörugjald af kolsýrðu vatni og hreinum ávaxtasafa og er það mjög jákvætt skref í rétta átt. Hins vegar mun vörugjald á gosdrykki einungis hækka lítillega, eða um 5 krónur á lítra eða 2,5 krónur á hálfan lítra, en vörugjald á súkkulaði kemur til með að lækka um 16 krónur á kíló, einnig á ýmsu öðru sælgæti og kexi.

Þessar breytingar munu því ekki hafa mikil áhrif til að draga úr neyslu á gosdrykkjum en gæti aukið neyslu á sælgæti. Þetta eru þær vörutegundir sem vega hvað þyngst í sykurneyslu landsmanna, eða yfir 50% af sykurneyslu fullorðinna samkvæmt niðurstöðum landskönnunar á mataræði 2010–11 og enn hærra hjá unglingum.

Ekki er hægt að segja að sú leið sem valin hefur verið taki nægjanlega mið af manneldissjónarmiðum og mun því ekki hafa mikil áhrif til bættrar lýðheilsu. Hækka þyrfti vörugjöld á sykri talsvert meira en nú er gert til þess að það skili hækkun sem einhverju nemur á þessum vörum sem vega þyngst í sykurneyslu landsmanna,“ segir í umsögn landlæknis.

Embætti landlæknis bendir á að vörugjalda á gosdrykki og sælgæti væri árangursríkari leið til að draga úr sykurneyslu landsmanna.  Önnur leið sem væri hægt að fara er að færa gosdrykki og sælgæti á milli virðisaukaskattsflokka þannig að þessar vörur væru skattlagðar í samræmi við almenna skattheimtu í landinu. Þetta séu þær vörutegundir sem lækkuðu hvað mest í verði í mars 2007 þegar virðisaukaskattur á þeim lækkaði úr 24,5% í 7% og vörugjöld voru felld niður af gosdrykkjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert