Komin heim með dæturnar

Friðrik og Bjarnhildur ásamt dætrunum, þeim Helgu Karólínu og Birnu …
Friðrik og Bjarnhildur ásamt dætrunum, þeim Helgu Karólínu og Birnu Salóme. Myndin er fengin af Facebook-síðu fjölskyldunnar.

Hjónin Friðrik Kristinsson og Bjarnhildur Hrönn Níelsdóttir eru komin heim til Íslands með dæturnar Helgu Karólínu og Birnu Salóme. „Þetta er búinn að vera hreint út sagt alveg meiriháttar dagur. Við erum svo glöð að vera komin heim með dætur okkar,“ skrifa þau á facebooksíðu sína í nótt.

Hjónin fóru til Kólumbíu í desember í fyrra til að ættleiða stúlkurnar og höfðu verið þar síðan. Þar gengu í gegnum mikla erfiðleika og þá einkum vegna dómara við kólumbískan undirrétt. 22. nóvember sl. dæmdi hæstiréttur í Medllin þeim í vil og þá voru stúlkunar loksins orðnar löglegar dætur þeirra.

„Við lögðum af stað á þriðjudagskvöldið með Lufthansa til Frankfurt. Þar gistum við eina nótt og komum svo heim með Icelandair í dag. Þegar við komum til Íslands beið fjölskyldan okkar eftir okkur á flugvellinum. Það var alveg meiriháttar að hitta alla aftur og urðu miklir fagnaðarfundir. Stelpunum þótti mjög gaman að hitta alla ættingja sína. Við fórum heim með fjölskyldu okkar og var haldin stór veisla í tilefni af komu Helgu og Birnu til landsins,“ skrifa þau Friðrik og Bjarnhildur.

„Þetta er búinn að vera hreint út sagt alveg meiriháttar dagur. Við erum svo glöð að vera komin heim með dætur okkar. Okkur finnst við vera svo óendanlega rík og erum svo þakklát fyrir yndislegu stelpurnar okkar. Loksins eru þær komnar heim til Íslands þar sem þær eiga heima, komnar með dótið sitt, rúmið sitt, föt sín og allt sem þær vantar. Lífið er fullkomið,“ skrifa þau ennfremur.

„Kæru vinir, við viljum þakka ykkur fyrir stuðninginn, allar fallegu kveðjurnar og hvatningarorðin, án ykkur hefðum við ekki getað gert þetta. Það hefur oft verið sagt að það sé gott að vera Íslendingur þegar eitthvað bjátar á og gætum við ekki verið meira sammála því,“ segja þau að lokum.

Helga Karólína og Birna Salóme stoltar með vegabréfin sín.
Helga Karólína og Birna Salóme stoltar með vegabréfin sín. Af Facebook-síðu fjölskyldunnar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka