„Nú liggja fyrir Alþingi ný lög um náttúruvernd. Víst er að þar er margt gott að finna og ásetningur vafalaust góður,“ segir Halldór Jón Theódórsson bifvélavirki í grein í Morgunblaðinu í dag.
Þegar nýju lögin eru lesin, segir Halldór Jón, er rauði þráðurinn sá að taka það fyrirkomulag sem nú er við lýði alfarið úr sambandi. Nota á nýjan kortagrunn sem fjarri því er tilbúinn og nota hann sem stjórntæki fyrir þá vegi og vegslóða sem má fara um. Á mannamáli á sem sagt að loka öllum vegum og slóðum öðrum en þeim sem umhverfisráðherra vill hafa opna og þessi ólög eiga að taka gildi 1. júlí á næsta ári.
Í mínum huga er þessi hluti laganna hrein ólög, segir bifvélavirkinn, og aðför að ferðafrelsi mínu og þar með lífsgæðum mínum og fjölskyldu minnar sem erum uppi um fjöll og firnindi í frítímum okkar.