Pólitískar ákvarðanir fremur en faglegar

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/Golli

„Greinilegt er að boðaðar hækkanir munu fyrst og fremst bitna á flugfarþegum sem eiga leið um Reykjavíkurflugvöll. Fjölmennasti hópur flugfarþega eru íbúar landsbyggðarinnar sem sækja margs konar þjónustu til höfuðborgarinnar sem ekki er boðið upp á í heimabyggð. Fjárveitingarvaldið hefur skorið stórlega niður framlög til rekstrar flugvalla meðan á sama tíma eru framlög til annarra almenningssamgangna aukin.“

Þetta segir í fréttatilkynningu frá Samtökum ferðaþjónustunnar þar sem boðaðri hækkun farþegaskatta og flugþjónustugjalda er mótmælt. Vísað er í fund sem Isavia átti með flugrekstraraðilum 3. desember síðastliðinn þar sem komið hafi fram að farþegaskattar á Reykjavíkurflugvelli myndu hækka um 41% og lendingargjöld flugvéla um 33%. Umtalsverðar hækkanir hafi einnig átt sér stað á síðasta ári og hækkanir verið langt umfram allar viðmiðunarvísitölur og þróun fargjalda.

„Eðlileg krafa flugrekenda hlýtur að vera að þeir fái aðkomu að ákvörðun um rekstur og fjárfestingar þeirra sem reka flugvellina en bein aðkoma þeirra að slíkum ákvörðunum er engin í dag. Ljóst er að í einhverjum tilfellum eru ákvarðanir í slíkum efnum teknar á pólitískum forsendum en ekki faglegum,“ segir ennfremur og tekið fram að flugrekstraraðilar séu alfarið andvígir boðaðri hækkun stjórnvalda sem muni leiða til aukins kostnaðar fyrir flugfarþega, koma niður á rekstri almennra flugsamgangna og stuðla að frekari fækkun flugfarþega.

„Mál er að linni. Landsbyggðin þarf á öðru að halda en búa við óhagræði í flugsamgöngum sem oft er eini möguleiki almennings til ferða stóran hluta ársins, auk þess sem flugið stuðlar að heilsársnýtingu fjárfestinga á landsbyggðinni í ferðaþjónustu,“ segir að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert