„Hættu að vera dónalegur“

Frá vettvangi á Laugaveg í gær.
Frá vettvangi á Laugaveg í gær. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

„Það er stundum erfitt að fá það hlutskipti að segja fólki til og þá er sama á hvaða aldri fólk er sem biðlað er til. Það hlutverk fá lögreglumenn við ýmis verk svo sem lokanir svæða til að tryggja vinnusvæði og öryggi almennings,“ segir á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðisins í dag.

Þar er sagt frá því að lögreglumenn, sem gætt hafi vettvangs á Laugavegi í Reykjavík í gær þegar aðgerðir stóðu sem hæst vegna bruna í fjölbýlishúsi og björgun fólks og verðamæta úr því, hafi mætt undarlegu viðmóti margra vegfarenda. Þrátt fyrir skýrar merkingar með lokunarborðum lögreglu hafi margir þannig tekið upp á því að skríða undir borðana.

„Þegar lögreglumenn bentu þeim á að svæðið væri lokað sagðist fólk einfaldlega þurfa að komast í gegn. Þetta voru ekki börn heldur fullorðnir einstaklingar,“ segir ennfremur en sumir hafi brugðist við fyrirmælunum með að segja: „Þú segir mér ekki til“ eða „Hættu að vera dónalegur“ í kjölfar þess að viðkomandi lögreglumaður hafi sagt: „Fyrirgefðu en hér er lokað, það stendur einnig á borðanum sem þú varst að skríða undir.“

Fram kemur að lögreglumenn hafi átt í fullu fangi með að hlaupa á milli lokana til þess að stöðva fullorðið fólk á meðan á aðgerðunum stóð. Minnir lögreglan á mikilvægi þess að slíkar lokanir séu virtar enda séu þær settar upp í fullri alvöru til þess að tryggja vinnusvæði viðbragðsaðila og öryggi annarra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert