Hefur borðað 50 tonn af Prins Póló

Ómar Ragnarsson.
Ómar Ragnarsson. mbl.is/Tómas Jónasson

Ómari Ragnarssyni, fjölmiðlamanni og skemmtikrafti, reiknast svo til að hann hafi snætt 50 tonn af Prins pólói undanfarin 55 ár og segir það „lymskulega gott“. Í pistli á bloggsíðu sinni furðar Ómar sig á fyrirætlunum stjórnvalda um að lækka vörugjöld og verð á súkkulaði á sama tíma og þau tali um heilsuvernd.

Ómar hefur nú dregið stórlega úr neyslu sinni á góðgætinu.

„Leitun er að neysluvöru sem hefur jafn hátt fituinnihald og súkkulaði,“ skrifar Ómar. „Fitan í því er meiri en í hreinum rjóma og næstum þrefalt meiri en í matreiðslurjóma og orkan með því mesta sem þekkist. Aðeins smjör slær súkkulaðinu við svo að um muni, með 680 hitaeiningum á 100 g og 75 grömmum af fitu.“

„Samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu telst ég ekki vera of feitur, en hef nálgast mörkin ískyggilega og þyrfti að losa mig við 10-12 kíló. Mér taldist til í fyrra að ég hefði étið 50 tonn af Prins Póló síðan 1957 og hef nú minnkað skammtinn niður í eitt lítið stykki í viku, þ. e. á sunnudögum.“

Ómar segist eiga erfitt með að skilja að stjórnvöld lækki vörugjöld og verð á súkkulaði og tali um heilsuverndarstefnu í hinu orðinu. „Á tímum þegar um er að ræða einn af helstu orsakavöldum mesta heilsuvandamáls nútíma þjóðfélaga, offitu sem veldur hjartasjúkdómum, of háum blóðþrýstingi, áunnri sykursýki og fleiri erfiðum sjúkdómum er varla ekki hægt að orða þetta öðruvísi en sem varasamt og óþarft dekur við ógnvald. Nema að þeir, sem að þessu standa, hafa ekki einu sinni haft tíma til að lesa á umbúðum súkkulaðivaranna um innihald þeirra,“ skrifar Ómar.

Ómari reiknast svo til að hann hafi borðað 50 tonn …
Ómari reiknast svo til að hann hafi borðað 50 tonn af Prins Póló súkkulaði undanfarin 55 ár. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert