„Var metin af verkum mínum“

Eygló Harðardóttir.
Eygló Harðardóttir.

„Mér er efst í huga þakklæti til stuðningsmanna minna fyrir það traust sem mér var sýnt hér í Suðvesturkjördæmi, nýju kjördæmi,“ segir Eygló Þóra Harðardóttir sem mun leiða lista Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi.

Það varð niðurstaða kosningar á kjördæmisþingi flokksins sem nú er haldið í Hafnarfirði. Kjósa þurfti á milli þeirra Eyglóar og Willums Þórs Þórssonar eftir að ekkert þeirra þriggja, sem buðu sig fram í fyrsta sætið fékk afgerandi meirihluta. Una María Óskarsdóttir bauð sig einnig fram í 1. sætið.

„Ég tel að þetta hafi sýnt það að mönnum hafi hugnast mín verk og minn málflutningur á þessu kjörtímabili. Því það var fyrst og fremst það sem fólk hafði til að meta mig  og dæma mig út frá.“

Auðvitað tekst fólk á

Willum Þór fékk flest atkvæði í fyrstu umferðinni og Eygló segist hafa gert sér grein fyrir því að hún væri að fást við verðuga andstæðinga. „Þannig að ég er mjög þakklát fyrir þann stuðning sem ég fékk í annarri umferðinni.“

Spurð að því hvernig kosningabaráttan hafi gengið fyrir sig segir Eygló að hún hafi verið mikið til „maður á mann“. „En þegar fólk er að keppa að sama markmiði, þá tekst það auðvitað á. En ég efast ekki um að Framsóknarmenn hér í Suðvesturkjördæmi, eins og í öðrum kjördæmum, muni stilla upp mjög sigurstranglegu liði, hóp sem mun vinna vel saman til að ná góðum árangri í kosningunum í vor.“

Horfði til þess hvað væri best fyrir kjördæmið

Eygló er núna þingmaður Suðurkjördæmis. Hvers vegna skiptir þú um kjördæmi? „Ég horfði til þess hvað væri best fyrir kjördæmið og flokkinn. Líka fannst mér það skipta máli að fá ákveðinn dóm um hvernig ég hefði staðið mig á kjörtímabilinu. Að horft yrði til míns málflutnings og minna verka. Þannig að ég er mjög þakklát fyrir að hafa verið metin af verkum mínum, að hafa fengið þessa niðurstöðu og þann stuðning sem ég fæ hér.“

Frétt mbl.is: Eygló leiðir í Kraganum

Frá kjördæmisþingi Framsóknarflokksins í Hafnarfirði í dag. Frá vinstri: Una …
Frá kjördæmisþingi Framsóknarflokksins í Hafnarfirði í dag. Frá vinstri: Una María Óskarsdóttir, Eygló Þóra Harðardóttir og Willum Þór Þórsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka