Gott skíðafæri var á öllum helstu skíðasvæðum landsins í dag. Bláfjöll opnuðu á fimmtudag og samkvæmt rekstrarstjóra var færið eins og best verður á kosið á troðnum slóðum í fjallinu.
Bláfjöll opnuðu á fimmtudag og voru opin alla helgina.
„Ef árið 2010 er undanskilið höfum við opnað fyrir vel jól á undanförnum árum,“ segir Einar Bjarnason rekstrarstjóri Bláfjalla. Hann segir að tiltölulega fáir hafi komið í fjallið um helgina en á von á mikilli fjölgun í næstu viku. „Þá hefjast skólaleyfin auk þess sem margir klára prófin um það leyti.“ segir Einar.
Hann segir nægan snjó í fjallinu sem stendur en reynslan sýni að hann geti horfið eins skjótt og hann kom. Hann segist finna fyrir auknum áhuga hjá sveitarfélögum um að leggjast í kaup á svokallaðri „snjóbyssu“ sem framleiðir snjó.
„Þetta veltur á sveitafélögunum en við finnum fyrir jákvæðari umræðu um þetta hjá sveitastjórnarmönnum. Skýrslur sýna að þessar snjóbyssur eru ekki að skaða á nokkurn hátt og ef hægt er að tala um einhver vandamál, þá eru það lúxus vandamál sem auðvelt er að leysa,“ segir Einar.