Líf og fjör getur leynst í jólatrjám

Jólatréð getur verið líflegra en fólk á von á.
Jólatréð getur verið líflegra en fólk á von á. Guðmundur Rúnar Guðmundsson

„Ýmislegt kvikt berst með jólatrjám og þannig verður það á meðan við flytjum jólatrén inn,“ segir Erling Ólafsson, skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. „Svo berst líka ýmislegt á milli landshluta með innlendu trjánum.“

Ýmis skordýr leggjast í dvala í trjám yfir vetrarmánuðina, þau leynast undir berki og í sprungum og glufum. Ef tréð gegnir hlutverki jólatrés og fer inn í hlýja stofu vakna skordýrin til lífsins og fara á stjá, eigendum jólatrjánna oft til lítillar gleði sem sjá fátt jólalegt við þessar óvæntu heimsóknir.

Asparglytta, maríuhæna og kónguló

Eitt þessara skordýra er asparglytta, sem Erling segir stundum fylgja með innlendum jólatrjám. „Hún leggst stundum í dvala í grenitrjánum, hún vetrarnáttar sig þar og er svo að berast með þeim, til dæmis getur það gerst þegar fólk er að fara út í skóg að höggva sjálft,“ segir Erling.

Nokkuð er flutt hingað inn af jólatrjám, til dæmis frá Danmörku. Að sögn Erlings leynast ýmsir óboðnir gestir í þeim, algengastir þeirra eru maríuhænur og ýmsar kóngulóartegundir. 

„Það er svo sem ekkert að því þegar gamalgrónir kunningjar, dýr sem hér eru til fyrir, berast með trjánum. Það er ekkert að því að fluga, sem alls staðar er, berist á milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. En það er verra þegar nýir landnemar sem eru staðbundnir, eins og til dæmis asparglyttan, eru að berast á milli landshluta.“

Líflegra tré en búist hafði verið við

Í desember fær Erling iðulega heimsóknir frá fólki sem hefur orðið vart við líf í jólatrjám sínum. „Fólk kemur gjarnan með til mín það sem það telur áhugavert. Það eru alls konar skordýr. Sumir koma vegna þess að þeir skelfast þetta, aðrir eru forvitnir og vilja vita hvað þetta er.“

Á vefsíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands segir frá íbúa í Hafnarfirði sem heimsótti stofnunina í fyrra með væna grein af jólatrénu sínu, en tréð hafði reynst nokkru líflegra en við var búist. Tréð, sem hann hafði keypt í ræktunarreit í Mosfellsbæ, tók nefnilega að iða af lífi þegar það var komið á sinn stað inni í stofu.

Þar var asparglyttan sökudólgurinn, en hátt í hundrað bjöllur hennar duttu af trénu þegar eitri var úðað á það.

Alltaf nýir og nýir landnemar

Geta einhver af þessum skordýrum, sem berast hingað að utan með jólatrjám, verið hættuleg fólki? „Nei, það hefur ekki gerst, svo ég viti til. Ég hef meiri áhyggjur af því sem hingað kemur og er óæskilegt í náttúrunni. Allt  getur gerst í þeim efnum. Það eru alltaf að koma nýir og nýir landnemar, einhvern veginn koma þeir hingað. Við flytjum þá inn á einhvern hátt og þetta er ein leiðin,“ segir Erling.

Asparglytta. Myndin er tekin af heimasíðu Náttúrufræðistofnunar.
Asparglytta. Myndin er tekin af heimasíðu Náttúrufræðistofnunar. mynd/Erling Ólafsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert