„Smit getur komið við ýmsar aðstæður, djúpfryst ber, ostrur og ýmsar matvörur sem smitast þar sem veikur einstaklingur hefur borið smit í. Einstaka einstaklingar, eða allt upp í 20 þúsund, hafa erfðafræðilegar varnir gegn sjúkdómnum og veikjast mun síður en aðrir,“ segir Óskar Reykdalsson, sóttvarnarlæknir í suðurumdæmi í aðsendri grein á fréttavefnum dfs.is um ælupest sem er að ganga, svokölluð noro-veira.
„Sjúkdómurinn kemur oftast fyrir í nóvember til og með apríl en er langalgengastur í janúar og febrúar og þess vegna er þetta kallað í ýmsum tungumálum vetrarælupestin,“ segir Óskar í greininni.
Óskar segir sjúkdóminn mjög smitandi og að einn dropi af ælu, hægðasnertingu eða öndunarsmiti af mjög litlum toga geti smitað einstaklinga sem eru í návígi við sjúkling. Hann segir smitandi sjúklinga dreifa smitinu í um tvo sólarhringa og stundum lengur.
„Vörn gegn sjúkdómnum eftir eigin sýkingu er stutt og algengt er að fólk veikist aftur af sama sjúkdómi, jafnvel ár eftir ár. Caliciveirur eru algengasta orsök uppkasta og niðurgangspestar á sjúkrahúsum og hjúkrunarheimilum,“ segir í greininni.
Óskar segir í greininni að veiran greinist oft í hægðum fólks, sem veikst hafi, margar vikur eftir einkenni en Óskar segir helstu einkenni sjúkdómsins vera snögg veikindi, uppköst, mikla ógleði, niðurgang, kviðverki, vöðvaverki, höfuðverk og hita. Þá segir hann mikilvægt að sjúkdómurinn læknist af sjálfu sér á fáum dögum.
„Greining er oftast gerð bara við skoðun læknis en hægt er að taka rannsóknir á svokallaðri PCR aðferð en ekki hægt að rækta veiruna. Tímabil frá smiti þar til að einstaklingur veikist eru 12-48 klukkustundir og helstu vandamál við greiningu sjúkdómsins er mismunagreining við aðra sambærilega vírusorsakaða sjúkdóma en stundum eru vandamálin verri eins og alvarleg blóðeitrun eða jafnvel heilahimnubólga sem getur líkst þessu,“ segir í greininni.
Óskar segir ekki hægt að fyrirbyggja sjúkdóminn með bólusetningu og mikilvægt að hafa góðan handþvott, ekki síst á heimilum viðkomandi. Þá segir hann að veikir einstaklingar eigi ekki að sinna matargerð fyrir aðra.
Hann segir enga sérhæfða meðferð til við sjúkdómnum en að best sé að drekka smá skammt af vatni með jöfnu millibili og að þá sé gott að hafa sykur og salt í vatninu.