Sérstakur saksóknari fer fram á fimm og hálfs árs fangelsi yfir Lárusi Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis banka, í Vafningsmálinu svonefnda. Þá fer hann fram á fimm ára fangelsi yfir Guðmundi Hjaltasyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs sama banka. Brotin eru sögð án fordæma.
Munnlegur málflutningur í málinu hófst í morgun og er ekki búist við að honum ljúki fyrr en um kvöldmatarleytið. Hólmsteinn Gauti Sigurðsson, saksóknari hjá sérstökum saksóknara, hóf leik og talaði í rúmar tvær klukkustundir. Hann sagði að brot þeirra Lárusar og Guðmundar væru alvarleg trúnaðarbrot, þeir hefðu í heimildarleysi ráðstafað gríðarlegum fjármunum með tilheyrandi fjártjónshættu fyrir Glitni. Þó ekki sé ljóst með endurheimtur sé ljóst að langstærstur hluti þeirra tíu milljarða króna sem lánaðar voru sé tapaður.
Þá segir Hólmsteinn að þrátt fyrir að þeir hafi ekki hagnast sjálfir persónulega sé brot þeirra stórfellt og sakir miklar. Málið eigi sér ekki fordæmi í alvarleika en um hafi verið að ræða mjög stóran banka á hlutabréfamarkaði með þúsundir hluthafa.
Í ljósi þessa og annarra dóma sem fallið hafa í umboðssvikamálum sé farið fram á að Lárus sitji inni í fimm og hálft ár og Guðmundur í fimm ár.
Eins og komið hefur fram eru þeir Lárus og Guðmundur ákærðir fyrir að hafa tekið ákvörðun um að lána Milestone 102 milljónir evra, sem þá var um tíu milljarðar króna, í formi peningamarkaðsláns 8. febrúar 2008. Lánið hafi verið veitt án veða og trygginga, og ákvörðun tekin utan funda áhættunefndar bankans.
„Þeir voru sannarlega á fundinum og að fullu meðvitaðir um þá atburðarás sem endaði með því að Milestone var veitt peningamarkaðslán í miklum flýti og með mjög óvenjulegum hætti. Þeir undirrituðu skjal sem gat aðeins verið til að heimila lánveitinguna. Það er rökrétt miðað við gögn málsins og framburð vitna,“ sagði Hólmsteinn.
Lánið var fært yfir á félagið Vafning 11. febrúar 2008, en áhættunefnd bankans hafði samþykkt lán til þess félags og er ekki ákært vegna þess. Lánið var notað til að greiða lán Þáttar International við Morgan Stanley en það átti að gjaldfella 8. febrúar. Veð fyrir láninu voru hlutabréf í Glitni og var Milestone í fjárhagslegum ábyrgðum fyrir Þætti. „Ákæruvaldið telur sönnunargögn sýna að lánið hafi ávallt átt að vera Milestone til framdráttar. Raunverulegur tilgangur lánveitingarinnar er skýr, sama hvaða formflækjur voru undirbúnar.“
Hólmsteinn sagði starfsmönnum Glitnis hafa verið það ljóst snemma morguns 8. febrúar að ekki væri hægt að lána Vafningi, þar sem forsendur lánveitingarinnar gengu ekki eftir. Engu að síður hafi verið haldið áfram að undirbúa lánveitinguna, þar sem áhersla var lögð á að tryggja að Morgan Stanley fengi greitt, óháð því hvernig lánið væri afgreitt.
Lárus og Guðmundur hafa haldið því fram að þeir hafi ekki tekið ákvörðun um að lána Milestone, hugsanlega hafi hins vegar komið upp tæknileg vandamál þegar að útgreiðslu lánsins til Vafnings kom. „Þetta stenst ekki skoðun,“ sagði saksóknari. „Lítið mál var að stofna aðila í kerfum bankans ef hann var með kennitölu og Vafningur var kominn með kennitölu daginn áður. Augljós skýring er að þær tafir sem urðu við að færa eignir inn í Vafning hafi leitt til þess að Glitnir treysti sér ekki til að lána félaginu.“
Byggt er á því að Lárus og Guðmundur hafi tekið ákvörðun um að lána Milestone til að þess að lánið yrði greitt. Það hafi hins vegar verið andstætt reglum bankans og umfram heimildir. „Gögn málsins bera með sér að þeir komu að öllum þáttum málsins, bæði fyrir og eftir lánið til Milestone. [...] Það er afar ótrúverðugt að þeim hafi fyrst verið kunnugt um peningamarkaðslánið löngu síðar eða við yfirheyrslur hjá sérstökum saksóknara.“
Hólmsteinn segir það sérstaklega ótrúverðugt hvað Guðmund varðar en kl. 16.16 þann 8. febrúar hafi hann fengið tölvupóst með staðfestingu á millifærslu Milestone til Morgan Stanley. „Guðmundur tók fullan þátt í þessu máli.“
Þá sagði saksóknarinn það ljóst að Lárus og Guðmundur voru lykilmenn í atburðarásinni. Allan föstudaginn, 8. febrúar 2008, hafi verið að molna undan lánamáli Vafnings, láni sem áhættunefndin samþykkti. „Ávallt voru það ákærðu sem leiddu málið þann daginn. Ekki var haldinn fundur í áhættunefnd vegna þessa og samkvæmt reglum bankans þurfti annaðhvort formaður eða varaformaður áhættunefndar, ásamt einum meðlimi nefndarinnar, að taka ákvörðun utan fundar. Formaður var Lárus Welding og í nefndinni sat Guðmundur Hjaltason.“
Saksóknari segir ljóst að lánveitingin til Milestone hafi farið gegn reglum bankans. Bera hafi þurft lánveitinguna undir stjórn bankans til að hún væri heimil. „Stjórn bankans hefði ábyggilega gert alvarlegar athugasemdir við þetta lán, hefði það komið fyrir stjórnina. Öll atburðarásin ber það með sér að ákærðu vildu forðast það eins og heitan eldinn að bera þetta undir stjórnina.“ Frekar hafi þeir keyrt lánveitinguna í gegn í flýti og stofnað fé bankans í stórfellda hættu. Um hafi verið að ræða 10 milljarða króna aukna áhættu, án þess að auknar tryggingar kæmu á móti frá Milestone.
Saksóknari hefur lokið fyrri ræðu sinni og verjandi Lárusar tekið við. Hann heldur ræðu sinni áfram eftir hádegið og búast má við að henni verði lokið um klukkan þrjú. Þá tekur við verjandi Guðmundar Hjaltasonar sem talar líklega í um tvær klukkustundir. Þá eru eftir seinni ræður.