Rúmlega 30 manns missa vinnuna hjá fiskvinnslunni Norðurströnd ehf. á Dalvík vegna yfirvofandi gjaldþrots fyrirtækisins. Gjaldþrotabeiðni Íslandsbanka verður væntanlega tekin fyrir á fimmtudag í Héraðsdómi Norðurlands eystra, að sögn Guðmundar St. Jónssonar, framkvæmdastjóra Norðurstrandar.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Guðmundur að unnið hefði verið að fjárhagslegri endurskipulagningu rekstursins í allt að þrjá mánuði en þessi hefði orðið niðurstaðan. Vinnsla hefur legið niðri á meðan.
Starfsfólki Norðurstrandar á Dalvík var greint frá því á fundi á föstudaginn var að félagið færi líklega í gjaldþrot. Þar voru viðstaddir fulltrúar verkalýðsfélagsins Einingar-Iðju og Vinnumálastofnunar. Guðmundur sagði að starfsfólkið myndi fara á atvinnuleysisbætur þar til það fengi greitt úr ábyrgðarsjóði launa.
„Það hefur alvarleg áhrif þegar fyrirtæki af þessari stærðargráðu hættir starfsemi,“ sagði Svanfríður Inga Jónasdóttir, bæjarstjóri Dalvíkurbyggðar. Hún sagði áhrifin vera tvöföld. Annars vegar að fólk yrði mögulega atvinnulaust og hins vegar þau slæmu áhrif sem þetta kynni að hafa á líðan almennings í sveitarfélaginu.