Hefði Glitnir banki ekki lánað Milestone, eða Vafningi, 8. febrúar 2008 hefði Milestone orðið gjaldþrota og það gjaldþrot orðið til að fella Glitni. Þetta sagði verjandi Lárusar Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis, við málflutning. „Var þetta rétti tíminn fyrir Glitni til að leggja árar í bát?“
Óttar Pálsson, verjandi Lárusar, sagði ljóst að ef stærsta fjárfestingafélag landsins hefði farið í gjaldþrot í febrúar 2008 þurfi menn ekki að velkjast í vafa um að áhættan hafi verið raunveruleg, ekki aðeins fyrir Glitni heldur íslenska kerfið í heild. „Ég er sannfærður um að ef ákvörðun hefði verið tekin um að lána ekki og Milestone hefði fallið og íslenska kerfið, þá hefðu menn talað um að þetta hefði verið sú ákvörðun sem kippti stoðunum undan íslenska kerfinu. Margir væru væntanlega á þeirri skoðun að þetta hefði verið alröng ákvörðun.“
Hann fór fram á að Lárus verði sýknaður og sagði það alls ekki sannað, að Lárus hefði tekið ákvörðun um að lána til Milestone. Ekkert vitni hafi staðfest slíkt né gögn málsins. Hann sagði í raun að útilokað væri að sönnun væri komin fram um sekt Lárusar.
Ef hins vegar það teldist sannað að ákvörðunin hefði verið Lárusar sagði hann ekkert hafa verið gert nema með Glitni í huga. „Lánveitingunni var ráðstafað til Morgan Stanley, aldrei stóðu fjármunirnir Milestone eða öðrum félögum til ráðstöfunar. Engir persónulegir hagsmunir voru í málinu. Hún var beinlínis gerð til að bjarga Glitni frá yfirvofandi hættu.“
Hann benti á að efnisleg áhætta í málinu hefði verið nákvæmlega sú sama ef lánið hefði runnið beint til Vafnings, en ekki Milestone eins og gerðist. Lánið var fært yfir á Vafning þremur dögum síðar og var framlengt í nokkur skipti án athugasemda. „Trúnaðarbresturinn var ekki meiri en svo.“
Óttar hefur ekki lokið máli sínu en gert er ráð fyrir að það verði um klukkan þrjú.