Það sem af er vetri hefur tíðarfar í Skaftafelli verið rysjótt. Yfirleitt hefur verið kalt og bjart en þess á milli hlýindi og rigningar. Enginn snjór hefur safnast nema hátt til fjalla, en þess í stað hafa myndast miklir og samfelldir svellbunkar á göngustígum í Skaftafellsheiði. Af þeim sökum er nánast ófært um heiðina nema á góðum mannbroddum. Þeir sem ætla að ganga að Svartafossi eru því beðnir að notast við slíkan búnað til að fyrirbyggja byltur og beinbrot.
Þetta kemur fram í frétt á vef Vatnajökulsþjóðgarðs.
„Fyrir þá sem ekki eiga mannbrodda er heppilegra að ganga að Skaftafellsjökli. Stígurinn þangað er greiðfær og jökullinn fallegur á þessum árstíma. Gestastofan í Skaftafelli er opin alla daga frá 11 til 15 og tilvalið að kíkja þar við eftir góða göngu og fá sér kaffisopa eða heitt kakó,“ segir í fréttinni.