„Ég vil minna á að undanfarin þrjú ár hafa Evrópusambandið og Noregur verið einu aðilar málsins sem hafa raunverulega reynt að leita samkomulags um aflahlutdeild. Hvorki Íslendingar né Færeyingar hafa tekið þátt í þessum viðræðum af einlægni með því að setja fram eigin tillögur.“
Þetta segir Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, í svarbréfi til fulltrúa nokkurra evrópskra umhverfissamtaka og þar á meðal Árna Finnssonar, formanns Náttúruverndarsamtaka Íslands. Í bréfi samtakanna til hennar var lýst þungum áhyggjum af því að ekki hefði tekist að semja um makríldeiluna.
Damanaki segir ennfremur að hún hafi lagt sig fram við að reyna að finna lausn á deilunni og þannig meðal annars beitt sér persónulega ásamt sjávarútvegsráðherra Noregs í þeim tilgangi. Hún lýsir vonbrigðum sínum yfir því að viðræður á milli deiluaðila hafi til þessa ekki skilað neinum árangri.