Lítilsvirðandi yfirheyrslur

Guðmundur Hjaltason og Þórður Bogason, verjandi hans.
Guðmundur Hjaltason og Þórður Bogason, verjandi hans. Morgunblaðið/Styrmir Kári

Vitni í Vafningsmálinu svonefnda máttu þola lítilsvirðandi yfirheyrslur fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur vegna þess að rannsókn sérstaks saksóknara var í skötulíki. Þetta sagði Þórður Bogason, verjandi Guðmundar Hjaltasonar, í málflutningi í dag.

Til þess að forðast tvítekningar gerði Þórður málflutning Óttars Pálssonar, verjanda Lárusar, að sínum en með því var hægt að stytta ræðutíma Þórðar.

Þórður hefur eins og verjandi Lárusar Welding, sem einnig er ákærður í málinu, fyrir umboðssvik, gagnrýnt að ekki var tekin skýrsla hjá sérstökum saksóknara af tíu vitnum sem leidd voru fyrir dóminn. Þar var s.s. tekin fyrsta skýrsla af þeim um þetta tiltekna mál. „Ákæruvaldið er búið að etja fólki saman,“ sagði Þórður. „Það er ljóst að allt sem gert var föstudaginn [8. febrúar 2008] var gert í þágu Glitnis banka og engin trúnaðarbrot var um að ræða, ekki hjá einum einasta manni.“

Að því sögðu sagði hann yfirheyrslur saksóknara í málinu hafa verið lítilsvirðandi fyrir vitnin, þá sérstaklega fyrrverandi starfsmenn Glitnis.

Einn þeirra sem ekki var tekin skýrsla af í tengslum við málið hjá sérstökum saksóknara var Alexander K. Guðmundsson, fyrrverandi fjármálastjóri Glitnis. Þórður sagði augljóst að hann væri lykilpersóna í málinu, rétt eins og Guðmundur og Lárus. „Það verður að segja það eins og það er.“

Alexander hafi ekki verið undirmaður Guðmundar heldur hafi þeir verið jafnsettir innan bankans, auk þess sem Alexander var varaformaður áhættunefndar.

Ofurtrú á leitarorð við rannsókn

Þórður sagði að ummæli saksóknara í ræðu sinni þess efnis að Vafningur hefði verið stofnaður til að komast hjá lánareglum séu einfaldlega röng. Ákæruvaldið byggi á leynd í málinu sem sé ekki til staðar. Fjöldi starfsmanna hafi unnið að málinu og að sjálfsögðu allir að heilindum.

Sjá megi af gögnum málsins, og fyrst og fremst gögnum sem ákærðu þurftu sjálfir að afla, að ávallt var stefnt að lánaveitingu til Vafnings. Milestone-lánið hafi ekki verið annað en aðferð til að greiða út lánið með flýti þar sem Vafningur var ekki til í kerfi bankans. Félagið hafði ekki verið stofnað. Þórður sagði að saga ákæruvaldsins um leynipukur um dagsetningu skjala væri löngu fallin um sjálfa sig.

Þórður sagði að það skelfilega í málinu væri að ákæra hafi verið gefin út án þess að ákæruvaldið hafi kynnt sér til hlítar atburðarásina 8. febrúar 2008. Og þar af leiðandi hafði ákæruvaldið ekki hugmynd um hvað menn sem komu að atburðarásinni höfðu að segja um hana. „Fyrir viku vissi ákæruvaldið ekki hvað þeir ætluðu að segja, tíu vitni.“

Hann sagði ofurtrú lagða á tölvupósta og ofurtrú lagða á leit með leitarorðum í nefndum póstum. „[Rannsakendur] setja leitarorð inn í kerfið og heill og hamingja ræðst af því að rétt leitarorð sé slegið inn, þó það séu þúsundir gagna.“ Hann sagði að í þessu máli sé aðeins um að ræða 8. febrúar og hvað hafi gerst þann dag. „Þetta stenst ekki sönnunarkröfur að mál séu lögð fyrir dómstóla á þessum grundvelli, að það séu einhverjar tölvuleitir. Hvaða vissu höfum við fyrir því að það sé ekki fullt af tölvupóstum, mikilvægum, sem ekki eru komið fram í málinu?“

Á ekki að bjóða upp á söguburð

Þórður sagði engin gögn styðja ákæruna um það efni að útborgun peningamarkaðsláns til Milestone hafi verið borin undir ákærðu í málinu. Og engin gögn séu um að lán til Vafnings mánudaginn 11. febrúar 2008 hafi verið borin undir ákærðu. „Ákæruvaldið á ekki að fara fram með sögu eða bjóða virðulegum dómi upp á söguburð.“

Þá benti hann á að það hafi ekki verið fjármálaeftirlitið eða innra eftirlit bankans sem hafi gert athugasemd við lánveitinguna. Það var embætti sérstaks saksóknara sem stofnaði til málsins sjálft.

Hann sagði að fram þurfi að fara heildsætt mat á málinu, það þurfi að meta á heildstæðan hátt. Hlutirnir falli saman í samhengi og samhengið sé að við ákærðu sé ekki að sakast.

Þegar allir höfðu lokið ræðum sínum var málið dómtekið. Dómsformaður tilkynnti að dómsuppsaga sé áformuð 28. desember nk. Reynist tíminn ekki nægur verði því þó breytt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert