„Það er einfaldlega eindregin afstaða af hálfu sambandsins að sýna verði því verkefni sem heildarendurskoðun stjórnarskrár íslenska lýðveldisins er meiri virðingu en svo að gefa þeim sem um málið þurfa að fjalla aðeins tveggja vikna umsagnarfrest,“ segir Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, á heimasíðu sinni.
Þar bendir Halldór á að Samband íslenskra sveitarfélaga hafi ekki haft beina aðkomu að undirbúningi þess frumvarps að nýrri stjórnarskrá sem nú liggi fyrir Alþingi þrátt fyrir að um sé að ræða mál sem geti snert sveitarfélögin á margvíslegan hátt. Þannig hafi sambandinu til að mynda ekki verið boðið að tilnefna fulltrúa í stjórnlaganefnd á sínum tíma.
„Sambandið hefur hins vegar eftir megni reynt að koma á framfæri sjónarmiðum um tiltekna þætti málsins, m.a. á fundi með fulltrúum í stjórnlagaráði í júní 2011 og á fundi með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í nóvember sama ár,“ segir hann og bætir við að út úr því hafi ýmislegt jákvætt komið og sé sá kafli frumvarpsins sem fjalli um sveitarfélögin til þess fallinn að styrkja sveitarstjórnarstigið umtalsvert.
„Það er samt í raun fyrst núna, þegar frumvarp til stjórnskipunarlaga er lagt fram á Alþingi, sem talist getur tímabært að vinna heildstæða umsögn um þær tillögur sem felast í frumvarpinu. Þetta er ekki einfalt verkefni og í frumvarpinu eru fjölmörg umdeild ákvæði,“ segir Halldór ennfremur. Mikil vinna sé fólgin í því að vinna vandaða umsögn um frumvarpið sem ekki sé hægt að klára á örfáum dögum eins og gerð sé krafa um af hálfu meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.
„Með vísan til framangreindra sjónarmiða hefur Samband íslenskra sveitarfélaga óskað eftir því við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis að rúmur umsagnarfrestur verði veittur sveitarfélögum og samtökum þeirra til að fjalla um frumvarpið,“ segir hann ennfremur. Svar hafi hins vegar ekki borist við þeirri beiðni sambandsins en fram kemur að raunhæfur umsagnarfrestur fyrir jafn viðamikið mál sé að mati þess 6-8 vikur. Óskað var eftir umsögnum um frumvarpið 29. nóvember síðastliðinn.
„Það er hins vegar alveg ljóst að sambandið mun ekki skila endanlegri umsögn sinni um frumvarpið fyrir 13. desember, eins og þingnefndin hefur óskað eftir,“ segir Halldór ennfremur.