Sakar Heimssýn um tvískinnung

Páll Vilhjálmsson
Páll Vilhjálmsson

Páll Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri Heimssýnar, segir að ef Heimssýn ætli ekki að berjast gegn þeim stjórnmálaflokkum sem reyna að koma Íslandi inn í Evrópusambandið hafi Heimssýn tekið upp stefnu VG í Evrópumálum, þ.e. þykjast í orði vera á móti ESB-aðild en vinna engu að síður að framgangi ESB-umsóknarinnar.

Þetta segir Páll í tilefni af yfirlýsingu sem Ásmundur Einar Daðason, formaður Heimssýnar, sendi fjölmiðlum í dag. Í yfirlýsingu Ásmundar Einars segir að bloggfærslur sem Páll skrifaði um málefni Vinstri grænna endurspegli ekki samþykkta stefnu Heimssýnar, sem er fyrst og síðast að berjast gegn aðild Íslands að ESB. „Heimssýn hefur og mun aldrei hafa það að markmiði að berjast gegn ákveðnum stjórnmálaflokkum,“ segir í yfirlýsingunni.

Viðbrögð Páls við þessari yfirlýsingu er að birta á bloggsíðu Heimssýnar stutta færslu undir fyrirsögninni „Heimssýn styður VG, Samfylkinguna...“

Síðan segir: „Þá vitum við það: Heimssýn styður alla stjórnmálaflokka jafnt og gerir ekki upp á milli þeirra. Ætli Heimssýn komi til greina til friðarverðlauna Nóbels á næsta ári?“

Páll segir einnig á bloggsíðu sinni: „Stefna VG í Evrópumálum hefur skilað þeim árangri að flokkurinn sem fékk yfir 20 prósent atkvæðanna við síðustu þingkosningar mælist núna með tíu prósent fylgi. Örvænting forystu og fylgiliðs VG yfir stöðu flokksins er slík að þeir finna það helst til ráða að krefjast þess að Heimssýn taki upp máltilbúnað flokksins í Evrópumálum.

Heimssýn var ekki stofnuð til að blekkja þjóðina til fylgilags við aðlögunarferli inn í Evrópusambandið. Þeir sem vilja að Heimssýn taki upp stefnu VG í Evrópumálum hljóta að stíga fram og segja það fullum fetum. Ef stefnubreyting af því tagi verður ofaná er hætt við að fleiri segi sig úr Heimssýn en þeir þrír VG-liðar sem tilkynntu úrsögn í dag.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert