„Þessi ríkisstjórn var með stór orð í upphafi um launajafnrétti og annað og það hefur ekki verið staðið við neitt og það er bara komið að því að fólk er að springa. Þegar maður hættir að hafa fyrir salti í grautinn að þá náttúrulega bara kemur að því að fólk fær nóg,“ segir Arna A. Antonsdóttir, formaður Félags lífeindafræðinga, í samtali við mbl.is og vísar þar til þeirra kjara sem lífeindafræðingum, sem sé kvennastétt, standi til boða á Landspítalanum.
Lífeindafræðingar sem starfa á Landspítalanum hafa fundað þrisvar í viku í rúma tvo mánuði um kjaramál sín á spítalanum samkvæmt fréttatilkynningu frá félaginu. Þá hafi fjórir samstarfsnefndarfundir hafa verið haldnir á sama tímabili um stofnanasamning án árangurs. Þar segir ennfremur að heyrst hafi að nú standi til að leiðrétta laun ýmissa stétta en ekki sé ljóst hvort lífeindafræðingar séu þar á meðal. Þá er vakin athygli á því að byrjunarlaun lífeindafræðinga á Landspítalanum eftir fjögurra ára háskólanám sé 259.694 krónur.
Launahækkun forstjórans fyllti mælinn
„Þessir fundir munu væntanlega halda áfram þangað til eitthvað kemur út úr þessum yfirlýsingum,“ segir Arna og bætir því við að ljóst sé að þessi fundahöld hafi valdið talsverður titringi. Það verði annars fróðlegt að sjá hvað Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, hafi í hyggju að gera í málunum og hvort fyrirhugaðar aðgerðir eigi að ganga yfir alla eða aðeins að ná til sumra en ekki annarra.
„En það verður þá líka að koma eitthvað út úr þessu fljótlega. Það er alveg ljóst,“ segir Arna. Það sem fyllt hafi mælinn í þessum efnum hafi verið ákvörðun Guðbjarts Hannessonar, velferðarráðherra, að hækka laun Björns um 450 þúsund krónur á mánuði sem síðar var tekin til baka.
„Það bara fyllti mælinn því það voru allir búnir að vinna með honum í þrjú og hálft ár og síðan kom þetta framan í fólk. Það segir sig væntanlega bara sjálft að það varð allt vitlaust. Það voru ekki bara hjúkrunarfræðingar og lífeindafræðingar heldur urðu allar stéttir á spítalanum brjálaðar,“ segir hún.