„Þetta er hörmulegt mál“

„Þetta er hörmulegt mál í alla staði,“ segir Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri Landsambands kúabænda, um ástandið á tveimur kúabúum sem hafa verið svipt starfsleyfi. Hann segist ekki sjá annað en að fullt tilefni hafi verið til að grípa til aðgerða gagnvart búunum.

Það heyrir til undantekninga að starfsleyfi kúabúa séu afturkölluð vegna óþrifnaðar og óviðunandi aðbúnaðar gripa samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun (MAST), sem er ætlað að tryggja matvælaöryggi.

Í síðasta mánuði afturkallaði Matvælastofnun starfsleyfi Brúarreykja í Borgarfirði og Ingunnarstaða í Reykhólahreppi. Í báðum þessum málum var verið að fylgja því eftir að athugasemdir hefðu verið gerðar á fyrri stigum. Búin voru heimsótt ítrekað til eftirlits.

Skoða hvort dýraverndunarlög hafi verið brotin

Steinþór Arnarson, lögfræðingur MAST, segir í samtali við mbl.is að alvarlegri athugasemdir hafi verið gerðar við Brúarreyki og búið hafi fengið skemmri frest til að bregðast við. MAST tók ákvörðun um að afturkalla leyfið 30. nóvember sl. og var búinu bannað að afhenda mjólk og sláturgripi frá og með 1. desember. Stofnunin segir ennfremur að það sé til skoðunar hvort dýraverndarlög hafi verið brotin.

MAST gerði m.a. athugasemdir við að þrif á fjósi, mjaltaþjóni og mjólkurhúsi hafi verið ábótavant. Einnig voru gerðar athugasemdir við hreinleika gripa og merkingu kálfa.

Í bréfi sem MAST sendi til forsvarsmanna Brúarreykja 30. nóvember segir að þrátt fyrir ítrekaðar kröfur um úrbætur og aðvaranir um afleiðingar þess hafi verið brugðist seint, illa eða alls ekki við kröfum um úrbætur. Hlutirnir fari jafnan í sama farið aftur ef ekki komi til stöðugt eftirlit og kröfur af hálfu MAST.

Lokafrestur var veittur til 15. nóvember sl. til úrbóta. Þá segir að samkvæmt skýrslu MAST vegna eftirlits þann dag hafi ekki verið brugðist við umræddum kröfum innan tilskilins frests. Við bætist að þéttleiki gripa sem sé brot á reglugerð sé farin að hafa áhrif á matvælaöryggi þar sem skítur hlaðist hratt upp í húsinu og óþrifnaður sé almennur.

Fulltrúar MAST hafa heimsótt búið sex sinnum á þessu ári til eftirlits. Einu sinni í janúar, tvisvar í febrúar, einu sinni í maí og tvisvar sinnum í nóvember. Bent er á að reynt hafi verið að fara í eftirlit þann 1. mars en þá var MAST neitað um aðgang. Fram kemur að við eftirlitið hafi þurft að gera athugasemdir og veita fresti til úrbóta. Þrátt fyrir alla þessa fresti hafi við eftirlit þann 15. nóvember enn ekki verið búið að verða við kröfum um úrbætur.

MAST segir að meðalhófs hafi verið gætt. Stofnunin hafi ítrekað veitt fresti til að gera úrbætur á starfseminni án þess að frestir hafi verið nýttir til þess. Í ljósi þess þurfi að beita öðrum úrræðum.

Þá kemur fram að þéttleiki gripa í búinu sé slíkur að það komi niður á matvælaöryggi. Í fjósinu séu um það bil 90 gripir en það ráði hins vegar ekki við fleiri en 64 gripi. Þetta leiði til þess að skítur safnist upp hraðar og vart verði við það ráðið að húsið allt verði ein allsherjar for á einum degi. Þá segir að legubásar séu svo fáir að gripir leggist í forina með tilheyrandi áhættu fyrir matvælaöryggi.

Hafa kært ákvörðunina til ráðuneytisins

Á Ingunnarstöðum voru gerðar athugasemdir við neysluvatn, þrif á mjaltaþjóni, handþvottaaðstöðu, umgengni, flór og mjólkurhús, samkvæmt því sem fram kom í eftirlitsskýrslu frá 6. september sl.

Fram kemur í bréfi sem MAST sendi Ingunnarstöðum 9. nóvember sl. að kúabúið hafi aðeins orðið við kröfum um úrbætur á flór og kröfu um að taka vatnssýni. Öðrum kröfum um úrbætur hafi ekki verið sinnt. Þá liggi fyrir samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðiseftirlitinu að niðurstaða þeirra sýnatöku sýni saurgerla í vatninu. Var því ákveðið að afturkalla starfsleyfi búsins.

Forsvarsmenn Ingunnarstaða hafa kært ákvörðunina til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Samkvæmt upplýsingum frá MAST eru Brúarreykir ekki búnir að kæra ákvörðunina til ráðuneytisins

Steinþór tekur fram að það hafi ekki legið fyrir með áþreifanlegum hætti að mjólkin sé hættuleg eða menguð. Hann bendir á að í mjólkurbúum séu framkvæmdar sýnatökur en þær útiloki hins vegar ekki allt.  Ákvörðun um að afturkalla starfsleyfi búanna sé því fyrirbyggjandi aðgerð. „Til öryggis þá er þetta stoppað,“ segir Steinþór, enda aðbúnaðurinn óviðunandi og smithætta fyrir hendi. Viðbrögðin hefðu verið enn hraðari ef menn hefðu vitneskju um mengaða eða hættulega vöru.

Aðspurður um næstu skref segir Steinþór að best sé ef forsvarsmenn búanna taki til hendinni og verði við öllum kröfum um úrbætur. Þá geti þau sótt aftur um starfsleyfi.

Mælirinn var fullur

„Það eru í gildi lög og reglur og það er í höndum Matvælastofnunar að sjá til þess að þeim sé fylgt. Það má alltaf velta fyrir sér hvenær mælirinn er fullur en ég held að dyljist engum að í þessum tilvikum var hann fullur,“ segir Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri Landsambands kúabænda.

Baldur Helgi segir að reglur um eftirlit með fjósum sé þannig að héraðsdýralæknar skoði fjós einu sinni á ári. Ef það séu einhver veruleg frávik sé skoðað oftar. Þar sem eitthvað er athugavert er mönnum gefinn frestur til að koma hlutum í lag og síðan er því fylgt eftir. Ef ný skoðun leiðir í ljós að hlutirnir eru enn í ólagi er gefinn stuttur frestur og síðan er lokað fyrir.

Baldur Helgi segist treysta því að eftirlit í kringum þetta sé skilvirkt og það sé gætt að neytendavernd og dýravernd. „Þetta skiptir miklu máli fyrir ímynd stéttarinnar. Þetta lendir ekki bara á þessum aðilum heldur líður bændastéttin fyrir þetta.“

Baldur Helgi segir að sem betur fer séu svona mál fátíð. Hann segir að á Brúarreykjum hafi á árum áður verið rekið mikið fyrirmyndarbú, en þar hafi mál greinilega þróast mjög á verri veg á seinni árum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert