Endurskrifa þarf greinargerðina

Björg Thorarensen prófessor við lagadeild Háskóla Íslands.
Björg Thorarensen prófessor við lagadeild Háskóla Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, telur að greinargerð sem fylgir frumvarpi að stjórnskipunarlögum þar sem fjallað er um 34. gr. um náttúruauðlindir í þjóðareign sé ónothæf sem lögskýringargagn og endurskrifa verði hana frá grunni.

Björg hefur skilað inn umsögn um nokkra kafla frumvarpsins. Atvinnuveganefnd  Alþingis bað hana að svara spurningum um ákvæða um eignarrétt, atvinnufrelsi, náttúruauðlindir o.fl. í frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

Björg segir í svari sínu að frestur til undirbúnings sé „óhæfilega stuttur“ og engin tök á að greina þessi ákvæði til að geta svarað spurningum nefndarinnar með viðhlítandi hætti eða gera tæmandi athugasemdir við efni þeirra.

Björg segir að greinargerð við 34. gr. frumvarpsins sé samsett úr langri lýsingu á forsögu tilrauna til að setja stjórnarskrárkvæði um náttúruauðlindir og mismunandi sjónarmiðum um inntak þjóðareignar sem hafa komið fram auk langra skýringa því hvers vegna ákvæðinu var breytt í ýmsum atriðum í meðförum sérfræðingahóps, sem fór yfir frumvarpið, frá tillögu stjórnlagaráðs. „Það er ekki fallið til að skýra inntak og markmið ákvæðisins. Í raun er greinargerðin ónothæf sem lögskýringargagn til framtíðar og þyrfti að endurskrifa frá grunni,“ segir Björg.
Björg setur fram sjónarmið um nokkur almenn atriði sem mikilvægt sé að skoða nánar, en hún tekur fram að þessi atriði séu alls ekki tæmandi.
„ Mælt er með því að leitast verði við að ná betur kjarnanum að baki reglunni um náttúruauðlindir í þjóðareign og gera ákvæðið hnitmiðaðra. Þar sem aðstæður og viðhorf geta breyst í tímans rás er ekki mælt með náttúruauðlindir í þjóðareign séu taldar upp í ákvæðinu, heldur verði það gert í almennum lögum. Auk þess er óljóst hvort ákvæðið nær í heild sinni til hvers konar náttúrugæða í sinni víðtækustu merkingu.
 Á sama tíma er óljóst hvort í ákvæðinu felst sjálfstæð heimild til að breyta þeim auðlindum sem taldar eru í ákvæðinu og eru ekki háðar einkaeignarrétti í þjóðareign eða hvort þær verða lýstar þjóðareign með almennum lögum. Mælt er með því síðarnefnda, þ.e. að ákvæðið veiti löggjafanum fyrst og fremst heimildir til lagasetningar um efnið, sem sækir þá stoð í stjórnarskrárákvæðið og útfærir nánar markmið þess.
 Vafasamt er hvað átt er við með því að tiltaka „fullt gjald“ fyrir afnot af auðlind en víst er að ekki geta sömu sjónarmið átt við hér og þegar rætt er um „fullt verð“ sem bætur fyrir eignarnám í 13. gr.
 Ekki er ljóst til fulls hver eru áhrif ákvæðisins á eignarréttindi bæði einstaklinga og sveitarfélaga, bæði bein eða óbein í náttúruauðlindum eða áhrif á afnotarétt auðlinda miðað við núverandi skipan.“

Raða þarf ákvæðum um mannréttindi upp á nýtt

Björg gerir ýmsar athugasemdir við frumvarpið. Hún gagnrýnir t.d. uppsetningu á II. kafla og bendir á að þar hafi núgildandi mannréttindaákvæðum verið raðað upp á nýtt, sum slitin í sundur og þau standi ekki í innbyrðis samhengi í frumvarpinu. Nýjum ákvæðum hafi einnig verið bætt inn án tillits til efnislegs samhengis.

„Endurskoða þarf frá grunni röð greina í II. kafla þannig að skyldar greinar standi saman í ákveðinni efnislegri uppbyggingu, t.d. að grundvallarréttindi eins og persónufrelsi, bann við pyndingum og bann við dauðarefsingum standi meðal upphafsákvæða ásamt rétti til lífs, og t.d. að almenn takmörkunarheimild standi ekki mitt á meðal ákvæða um efnisleg réttindi. Þá þarf að finna greinum um eignarrétt og atvinnufrelsi stað sem hæfir efni þeirra og ákveðið innbyrðis samhengi.“
Umsögn Bjargar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert