Er enska norrænt tungumál?

Nútíma víkingar í fullum herklæðum. Þeir geta líklega tjáð sig …
Nútíma víkingar í fullum herklæðum. Þeir geta líklega tjáð sig bæði á norrænum málum og ensku margir hverjir. mbl.is

Norskur málfræðiprófessor heldur því fram að enska sé svo blönduð norrænum málum að hún sé í rauninni norrænt mál. Þetta kemur fram á fréttavef Berlingske í dag.

Þegar danskir og norskir víkingar lögðu undir sig England og Skotland veittu þeir tungumáli innfæddra, engilsaxnesku, náðarhöggið. Nútíma enska rekur því ekki ætterni sitt til engilsaxnesku sem norður-þýskir engilsaxar fluttu með sér á 5. öld.

Hún rekur hins vegar uppruna sinn til norrænna víkinga sem stofnuðu Danalög á 9. og 10. öld í austur- og norðausturhluta þess sem nú heitir England. Þannig hljómar umdeild kenning norska málfræðiprófessorsins Jan Terje Faarlund við háskólann í Ósló.

Hann heldur því fram að svo mikill málfræðilegur og orðsifjalegur skyldleiki sé með ensku og norðurgermönskum málum, eins og norrænu málunum, að enskan eigi fremur heima í þeirra hópi en í hópi vesturgermanskra mála.

Faarlund færir mörg rök fyrir máli sínu í grein norska háskólablaðsins Apollon.

Peter Gammeltoft, málvísindamaður við Kaupmannahafnarháskóla, segir að Jan Terje Faarlund gangi „allt of langt“ í kenningum sínum.

Hann segir vissulega rétt að enskan sé undir sterkum áhrifum frá norrænum málum. Það eigi t.d. við um mjög algeng orð eins og norrænu orðin fyrir „móðir“, „faðir“ og „systir“ og orð sömu merkingar í ensku. Hann telur að áfram eigi að flokka ensku sem vesturgermanskt mál.

Gammeltoft bendir á að mörg örnefni í norðaustur- og austurhluta Englands eigi rót að rekja til víkingatímans. Þannig enda nöfn um 750 kirkjustaða á orðinu „by“ (bær) eins og t.d. Grimsby sem eftir því gæti útlagst sem Grímsbær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert