Hættur störfum hjá Heimssýn

Páll Vilhjálmsson
Páll Vilhjálmsson

Páll Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri Heimssýnar tilkynni á stjórnarfundi samtakanna í kvöld að hann hefði ákveðið að segja upp starfi. Ákvörðunin er tekin í kjölfar gagnrýni sem hann varð fyrir eftir að hann skrifaði á Heimssýnarblogginu að verkefnið væri að koma VG niður fyrir 5% í næstu kosningum.

Páll hefur verið framkvæmdastjóri Heimssýnar í þrjú ár, en samtökin berjast gegn því að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu.

Formaður Heimssýnar sendi frá sér yfirlýsingu í gær vegna skrifa Páls. Páll brást við henni síðar um daginn.

„Þegar fyrir liggur að fullveldissinnar neita að starfa í Heimssýn vegna þess að ég er þar fyrir á fleti er mér ljúft og skylt að hætta störfum hjá samtökunum sem ég tók þátt í að stofna árið 2002.

Ég hætti störfum hjá Heimssýn í fullri sátt við formann samtakanna, Ásmund Einar Daðason, sem ég styð heilshugar til áframhaldandi formennsku. Ég hef starfað með Ásmundi Einari frá því hann tók við formennsku fyrir þremur árum og aldrei borið skugga þar á - jafnvel ekki síðustu daga þegar við höfum haft í frammi ólíkar áherslur til hlutverks Heimssýnar í opinberri umræðu.

Stjórn Heimssýnar þakkaði ég ánægjulegt samstarf á liðnu ári og óskaði þeim stjórnarmönnum velfarnaðar sem gefa kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu, en aðalfundur Heimssýnar er á morgun.

Ég mun starfa áfram með Heimssýn sem óbreyttur félagsmaður og njóta þess að hafa svigrúm sem almennur borgari að taka þátt í þjóðfélagsumræðunni,“ segir í yfirlýsingu sem Páll sendi frá sér í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert