„Þetta er auðvitað mikilvægt og flókið mál sem við erum að ræða. Umræðan hefur nú þegar staðið yfir í einn dag. Það má ætla, miðað við mælendaskrána eins og hún liggur fyrir núna, að það taki nokkurn tíma að ræða þetta mál. Og án efa mun ég heyra orðið málþóf í þessum þingsal og jafnvel lesa það af spjöldum hjá spjaldberum sem vappa hér á milli sala og ganga. En þetta er mikilvægt mál og það verður rætt hér.“
Þetta sagði Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag og vísaði þar til annarrar umræðu um þingsályktunartillögu um vernd og nýtingu landsvæða eða svonefnda rammaáætlun. Sagði hann að stjórnarandstaðan myndi reyna sitt ýtrasta til þess að breyta stjórnarstefnunni í málinu og fá stjórnarliða til að átta sig á því að nauðsynlegt væri að ná sátt um það. Þannig hefði verið lagt af stað með málið og þannig yrði það að enda.
„Næturfundir einhverjir um þetta mál breyta engu um það. Það verður auðvitað rætt um þetta mál hér,“ sagði Illugi ennfremur áður en atkvæðagreiðslu lauk um tillögu forseta Alþingis um að þingfundur gæti staðið lengur í dag en kveðið væri á um í þingsköpum. Tillagan var samþykkt með 30 atkvæðum gegn 12 og gera má því ráð fyrir að fundur kunni að standa fram á nótt.
Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að fróðlegt væri að heyra Illuga koma í ræðustól Alþingis og boða málþóf. Það væri ekki algengt en það hefði hann nú gert. „Hér á að verða málþóf í dag,“ sagði hann.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sagði Mörð líklega hafa sett nýtt met í að saka menn um málþóf enda væri umræðan ekki einu sinni hafin. „Það er þá búið að koma því á framfæri að af hálfu í það minnsta háttvirts þingmanns Marðar Árnasonar þá mun umræðan sem hér fer á eftir verða kölluð málþóf.“
Framhald annarrar umræða um rammaáætlunina stendur nú yfir en samtals eru 18 önnur mál á dagskrá þingsins í dag.