Jón Gnarr, borgarstjóri í Reykjavík, situr nú fyrir svörum á samskiptasíðunni reddit.com. Síðan er ákaflega vinsæl og byggist upp á skilaboðum eða málefnum sem notendur geta komið á framfæri.
Jón Gnarr hefur hingað til svarað alls kyns mögulegum og ómögulegum spurningum frá áköfum spyrlum. Meðal annars um stöðu íslenskrar tungu og hvernig best sé að neyta hins áfenga drykkjar, Opal.
Meðal annars hefur komið fram að borgarstjórinn hefur enga sérstaka skoðun á því hvort Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið þar sem hann telur vægi sambandsins ofmetið.
Eins hefur hann hvatt fólk til þess að flytja til Íslands og sagt frá því hvernig hnattræn hlýnun hafi komið sér vel fyrir Íslendinga. Hann segir að að hans helsta eftirsjá í lífinu sé að hafa ekki klárað skóla og lært taugalífeðlisfræði.
Aðspurður hvers vegna hann hafi ekki slegið til og hafið nám segir hann ástæðuna vera þá að hann sé upptekinn af því að vera borgarstjóri í Reykjavík.
Jón segir jafnframt frá því að eitt sinn hafi hann verið eltur af manni vopnuðum hamri í matvöruverslun. Jón fetar hér í fótspor ekki ómerkari manna en Barrack Obama forseta Bandaríkjanna sem sat fyrir svörum í aðdraganda forsetakosninganna í nóvember.
Hægt er að fylgjast með umræðum hér.