Valdbeiting á öldrunarheimilum tabú

Sigrún Huld Þorgrímsdóttir, öldrunarhjúkrunarfræðingur, segir það vera hálfgert tabú að ræða valdbeitingu gagnvart öldruðum. Hún sé þó ótvírætt til staðar og að skýra þurfi reglur um beitingu valds.

Sigrún Huld vakti athygli á þessu á fundi Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar sem haldinn var í Iðnó í gær og vísaði til norskra rannsókna á valdbeitingu gagnvart öldruðum þar sem einn af hverjum sex íbúum á almennum deildum hefði orðið fyrir valdbeitingu og að algengast væri að gripið væri til hennar til að sinna grunnumönnun. 

Oftast fer hún þannig fram að öldruðum einstaklingi sé haldið af einum eða fleirum á meðan einhver aðgerð er framkvæmd. Sigrún Huld setur spurningamerki við hvort hún sé í öllum tilvikum nauðsynleg og að rannsókna sé þörf.

Að sama skapi mætti skoða læsingar á herbergjum, sér í lagi hjá heilabiluðum þar sem nær allar stofnanir og deildir fyrir heilabilaða hér á landi séu læstar. Sigrún Huld vakti einnig athygli á notkun fjötra sem tíðkist víða en rannsóknir sýni að virkni þeirra geti verið þveröfug á við það sem ætlast sé til og beinlínis skaðleg heilsu fólks. En algengasta ástæðan fyrir notkun fjötra er að verja fólk falli, t.d. úr rúmi eða stól.

Sigrún Huld segir alveg ljóst að starfsfólk beiti ekki valdi af illum hug heldur til að standa sig vel í starfi; hinsvegar geti það komið niður á mannréttindum aldraðra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert