Sumar virkjanir sem ráðist hefur verið í á Íslandi hafa bætt umhverfið. Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, í umræðum um rammaáætlun.
Önnur umræða um rammaáætlun hófst á Alþingi í dag. Sigmundur Davíð sagðist í „sinni fyrstu ræðu við þessa umræðu“ ætla að ræða fyrst og fremst almennt um orkumál á Íslandi. Sex þingmenn eru á mælendaskrá.
Framsóknarmenn vilja að rammaáætlun verði ekki afgreidd á þessu þingi, heldur verði áætluninni vísað aftur til ríkisstjórnarinnar. Tillagan eins og hún lítur út núna sé ekki í samræmi við tillögu verkefnisstjórnar og geti því ekki verið grunnur að sátt í virkjanamálum.
Sigmundur Davíð nefndi virkjanir í Soginu sem dæmi um virkjanir sem hefðu bætt umhverfið. Þegar Ljósafossvirkjun hefði verið tekin í notkun árið 1937 hefði tekist að útrýma að mestu kolaeldavélum í Reykjavík og dregið hefði úr kolakyndingu. Þetta hefði bætt umhverfið. Ljósafossvirkjun og Írafossvirkjun væru auk þess fallegar virkjanir sem færu vel í landslagi.
Sigmundur Davíð sagði að stórar virkjanir sem byggðar hefðu verið hér á landi á seinni árum hefðu verið ein meginstoð í uppbyggingu velferðarkerfisins á Íslandi á seinni hluta 20. aldar. Ef þær hefðu ekki verið byggðar væru kjör almennings verri en ella.
Sigmundur Davíð sagði að aðrar leiðir til að framleiða endurnýjanlega orku hefðu ýmsa galla. Sólarrafhlöður í borgum væru alls ekki fallegar. Vindmyllur væru víða erlendis orðnar hrein plága. Hann sagðist ekki hafa á móti því að gera tilraun með að reisa vindmyllur hér á landi, en benti á að ef ætti að framleiða þá orku sem Kárahnjúkavirkjun framleiðir þyrfti að reisa tæplega 2000 vindmyllur. Um 2.000 vindmyllur þyrftu landssvæði sem væri um 440 ferkílómetra stórt sem er um 8 sinnum stærra en Hálslón.