„Það má auðvitað gera ráð fyrir því að stjórnarskrármálið sé eitthvað sem Jóhanna hafi bitið í sig að hún ætlaði að skila af sér á sínum ferli, svolítið eins og Gunnar Thoroddsen gerði 1983. Hann lagði fram frumvarp að stjórnarskrá sem átti að verða hans viðskilnaður við stjórnmálin. Alveg eins og hans stjórnarskrá var ekki tilbúin er þessi stjórnarskrá ekki tilbúin.“
Þetta segir Gunnar Helgi Kristinsson prófessor í stjórnmálafræði, í umfjöllun um stjórnlagaráðsmálið í Morgunblaðinu í dag. Hann segir þar ferlið allt meingallaða „óvissuferð“, frá þjóðfundi til meðferðar í þinginu.
„Stjórnlagaráð var algjörlega umboðslaus samkunda. Hún var ekkert lík þjóðinni hvað varðar bakgrunn, menntun eða annað. Kosningin var með þeim hætti að ekki er hægt að segja að byggt hafi verið á neinum málefnagrunni. Þannig að það er ekki samasemmerki milli stjórnlagaráðs og þess að málið hafi verið í höndum þjóðarinnar.
Síðan að demba þessu máli í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en hin efnislega umræða hefur farið fram um það er að mínu viti og í þeim fræðum sem ég stunda dæmi um misnotkun á þjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir Gunnar Helgi.