Ísland í betri stöðu utan ESB

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í viðtalinu við CNN.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í viðtalinu við CNN. Skjáskot af Cnn.com

„Við erum hér í miðju Norður-Atlantshafinu. Nágranni okkar í austri, Noregur, er fyrir utan Evrópusambandið. Nágranni okkar í vestri, Grænland, ákvað að yfirgefa Evrópusambandið. Og þegar horft er til framtíðar Norðurskautsvæðisins, sem er smám saman að verða að einum mikilvægasta vettvangi efnahagsmála heimsins á 21. öldinni, þá tel ég Ísland í betri aðstöðu til þess að hafa hag af framtíð svæðisins með því að viðhalda núverandi stöðu frekar en að láta Evrópusambandið tala fyrir okkar hönd.“

Þetta segir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands í viðtali sem birt er á vef bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CNN í kvöld en sjónvarpsmaðurinn Richard Quest var staddur hér á landi í nóvember síðastliðnum og ræddi þá við forsetann. Quest spurði Ólaf meðal annars um afstöðu hans til Evrópumálanna og þar með talið hvort hann myndi vísa ákvörðun um inngöngu í Evrópusambandið í þjóðaratkvæði ef á þyrfti að halda.

„Algerlega. Það var það sem ég sagði í forsetakosningunum fyrr á þessu ári og ég var endurkjörinn í embætti í fimmta sinn á grundvelli þess loforðs,“ svaraði hann. Einnig var rætt um ákvörðun Ólafs um að neita að undirrita Icesave-samningana og vísa þeim í þjóðaratkvæði og sagði hann að um hefði verið að ræða erfiðustu ákvarðanir sem hann hafi þurft að taka. Hann hafi hins vegar ákveðið að horfa fremur á lýðræðislegan rétt þjóðarinnar en láta undan þrýstingi evrópskra stjórnmálamanna og hagspekinga.

Quest spurði Ólaf hvort hann teldi að slík ákvörðun hafi aðeins verið möguleg á Íslandi og ekki til að mynda í Grikklandi og svaraði hann því til að Grikkir hafi ekki haft þann möguleika að gengisfella gjaldmiðil sinn þar sem þeir væru á evrusvæðinu. Þeir hefðu engu að síður getað markað sömu stefnu varðandi bankana. „Ég hef oft spurt þeirrar spurningar hvers vegna bankar eru álitnir heilagari í hagkerfinu en önnur fyrirtæki sem skila meiri framleiðslu.“

Quest spurði Ólaf einnig að því hvort hann teldi að íslenskt þjóðfélag hefði jafnað sig eftir bankahrunið. „Það eru enn sár, það eru enn ör, það er enn óánægja og það er enn reiði. En á heildina litið hefur lýðræðislegur vilji þjóðarinnar gert okkur kleift að ná okkur á strik aftur og stefna á vit framtíðarinnar nokkuð sjálfsörugg um að við getum byggt upp betra samfélag.“

Viðtalið í heild má nálgast hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka